14.11.2015 19:00

Laugardagur 14. 11. 15

Frakkar hafa orðið fyrir enn einni árás hryðjuverkamanna og féllu 129 manns en 352 særðust að sögn lögreglunnar í París um klukkan 18.00 laugardaginn 14. nóvember. Árásin var gerð af þremur samhæfðum hópum að kvöldi föstudags 13. nóvember á nokkrum stöðum í París og í nágrannaborgarhverfinu Saint-Denis. François Hollande Frakklandsforseti lýsti þessu sem stríðsaðgerð gegn Frökkum. Nokkru eftir ávarp forsetans laugardaginn 14. nóvember lýstu hryðjuverkasamtökin Ríki íslams sig ábyrg fyrir árásinni, hún hefði verið þaulskipulögð. Hollande sagði Frakka mundu beita öllu afli til að útrýma þessum barbörum.

George W. Bush Bandaríkjaforseti var gagnrýndur árið 2001 fyrir að lýsa yfir stríði gegn hryðjuverkamönnum. Hann breytti síðar um tón og talaði um baráttu gegn þeim – þótti stríðstalið of dramatískt fyrir hina pólitísku rétthugsun. Það er sérkennileg árátta hjá ýmsum álitsgjöfum að hafa ekki þrek til að kalla hlutina réttum nöfnum. Meira að segja Frans páfa þykir ástandið í heiminum þannig að hann talar um að þriðja heimsstyrjöldin sé nú háð „í bútum“.

Hvaða orð sem menn nota til að lýsa ástandinu í Mið-Austurlöndum og Evrópu er ljóst að vegið er að evrópsku öryggi og gildum mannúðar á þann veg að engin lýðfrjáls þjóð getur látið eins og ekki sé ástæða til öflugra gagnráðstafana.

Frakkar hertu alla öryggisgæslu í landi sínu eftir árásina á Charlie Hebdo í janúar á þessu ári og settu lög um meiri heimildir leyniþjónustu og lögreglu til að takast á við hryðjuverkamenn. Hvað Hollande og menn hans ætla að gera nú mun skýrast næstu sólarhringa en sameinað þing Frakklands kemur saman í Versölum mánudaginn 16. nóvember.

Hér hjá okkur verða úrtöluraddir háværar þegar vakið er máls á nauðsyn þess að gæta öryggis ríkisins.  Það eitt að hlusta á þær er varhugavert. Ég lauk grein sem birtist í Morgunblaðinu að morgni föstudags 13. nóvember á þessum orðum:

„Brýnasta verkefni líðandi stundar í öryggismálum þjóðarinnar er að efla lög- toll- og öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli. Samhliða áætlunum um öra fjölgun farþega ber að gera heildstæða áætlun um öryggismálin og framkvæma hana – án öryggisins er allt annað unnið fyrir gýg.“

Um 98% allra sem koma til landsins fara um sömu bygginguna, Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Séu ekki öll tækifæri til eftirlits nýtt í henni er dýrmætu öryggistæki kastað á glæ.