2.11.2013 16:30

Laugardagur, 02. 11. 13

Morgunblaðið minnist 100 ára afmælis síns í dag með útgáfu á veglegu afmælisblaði. Mikil gerjun er í blaðinu um þessar mundir og sóknarhugur. Frá 2002 hefur markvisst verið unnið að því að grafa undan fjárhag blaðsins með útgáfu fríblaðs í krafti auðmanna.

Fréttablaðið hefur ekki roð við Morgunblaðinu þegar litið er til fjölbreytni og efnistaka. Þá hefur Morgunblaðið slegið öllum íslenskum fjölmiðlum við í netheimum með vefsíðunni mbl.is. Á netinu sannast að sé íslenskum fjölmiðlum skipað jafnfætis varðandi dreifingu og aðgengi stendur ritstjórn Morgunblaðsins feti framar en aðrir þegar litið er til talna um heimsóknir á síðuna. Miklu skiptir að halda þessu forskoti og þróa þennan þátt í starfsemi blaðsins í takt við vaxandi kröfur um meira netefni.

Í kvöld sagði ég frá för okkar til Parísar í júní þar sem við sáum Niflungahringinn í Bastillu-óperunni. Hér má lesa það sem ég sagði um ferðina.