19.11.2013 22:05

Þriðjudagur 19. 11. 13

Í raun er ótrúlegt að aðeins hafi munað 90 mínútum að landslið Íslands næði á heimsmeistaramótið í knattspyrnu á næsta ári. Í leiknum í kvöld nægðu þessar mínútur fyrir Króata til að skora 2 mörk, okkar menn náðu hins vegar ekki að koma boltanum í netið hjá gestgjöfunum í Zagreb, höfuðborg Króatíu. Hvað sem því líður er ástæða til að óska íslenska liðinu til hamingju með árangurinn. Hann sýnir mikla þrautseigju. Króatar eru þekkt hörkutól.

Ég hafði ekki síður áhuga á leik Frakka og Úkraínumanna eins og sjá má hér á Evrópuvaktinni. Frakkar töpuðu illa í Kænugarði sl. föstudag og fengu á sig 2 mörk án þess að skora neitt sjálfir. Þeir urðu að sigra 3:0 í kvöld til að komast til Brasilíu. Þeim tókst það! Við þetta verður liðinu les Bleus fyrirgefið vegna allra fyrri ófara. Leikurinn í kvöld mun hvorki ýta undir kynþáttahatur né auka á þunglyndi frönsku þjóðarinnar til viðbótar við efnahagsraunir og óvinsælasta forseta V. franska lýðveldisins.