15.11.2013 22:20

Föstudagur 15. 11. 13

Þrisvar hef ég lagst inn á Landspítalann. Ávallt með nokkuð sérstökum aðdraganda.

Fyrir um það bil 20 árum var ég á prestastefnu á Hólum í Hjaltadal þar sem ég flutti erindi en fékk blóðeitrun í fótinn. Fór ég á slysavarðstofuna þegar ég kom til borgarinnar og var skipað að fara beint á Landspítalann þar sem ég lá í um það bil viku og fékk sýklalyf í æð.

Snemma árs 2007, fyrir rúmum sex árum féll saman á mér lunga. Þá lagðist ég tvisvar inn á Landspítalann og var að lokum lagfærður með holskurði. Sagði ég frá því dag frá degi hér á síðunni.

Við qi gong æfingar í morgun leið yfir mig, hringt var í sjúkrabíl sem kom fljótt á vettvang. Félagar mínir vöktu mig til meðvitundar en öruggar hendur þeirra sem komu í bílnum með þekkingu sína og reynslu sköpuðu mér og öllum öðrum vissu um að allt færi á hinn besta veg. Á Landspítalanum komst ég strax í hendur lækna og hjúkrunarfræðinga, var drifinn i hjartaþræðingu, sem sýndi heilbrigðar kransæðar. Síðan tóku við rannsóknir fram eftir degi og ákveðið var að fylgjast með mér og lagðist ég til svefns á hjartadeildinni.