13.11.2013 22:55

Miðvikudagur 13. 11. 13

Í dag var minnst 350 ára afmælis Árna Magnússonar handritasafnara. Margrét Þórhildur Danadrottning kom til landsins af því tilefni. Sýnir það einlægan áhuga drottningar á hinum sameiginlega menningararfi Íslendinga og Dana að hún komi hingað í vetrarferð, hún kann einnig að hafa viljað kynnast Íslandi að vetrarlagi. Veðrið gerir henni það kleift.

Dagskrá drottningar var ströng í dag. Ég sótti tvo liði hennar. Athöfn í hátíðasal Háskóla Íslands og dagskrá í Þjóðleikhúsinu, hvoru tveggja vel heppnað. Það hefði þó vel mátt flytja eitt klassískt tónverk, til dæmis eftir Jón Leifs í Þjóðleikhúsinu. Hann leitar efnis í brunni handritanna.