3.11.2013 22:20

Sunnudagur 03. 11. 13

Hefðin hefur verið að ráðherrar segðu ekki frá því sem gerist á ríkisráðsfundum. Þegar ég safnaði efni í ritgerð mína um starfsstjórnir las ég fundargerðir frá forsetatíð Sveins Björnssonar. Þar er bókað að fleira hafi komið til umræðu á fundunum en staðfesting á lögum og öðru sem lagt var fyrir ríkisráðið á þeim tíma.

Umfang þess sem borið er undir forseta til staðfestingar eða endurstaðfestingar í ríkisráðinu hefur minnkað mikið eftir að Ólafur Ragnar Grímssonar varð forseti 1996.  Meginhluti embættaveitinga hefur verið færður úr formlegum höndum forseta í hendur þeirra sem hina efnislegu ábyrgð bera, ráðherranna. Dagskrá ríkisráðsfunda hefur því styðst að þessu leyti en lagafrumvörp og lög eru mun fleiri en á fyrstu árum lýðveldisins.

Um langt árabil hefur sá háttur gilt að fundargerð ríkisráðsins er skráð áður en fundur hefst. Af þessu er mikil hagkvæmni og auðveldar aðferðin að allir fundarmenn riti undir gerðina strax að fundi loknum. Þessi háttur undirstrikar að ríkisráðsfundirnir snúast um formsatriði.

Nú mun væntanleg bók frá Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, þar sem hann virðist ætla að rjúfa hefðina um trúnað um umræður á ríkisráðsfundum. Jóhanna Sigurðardóttir barðist sem forsætisráðherra við Ólaf Ragnar um setningu siðareglna – hvað ætli hafi staðið í þeim um frásagnir af ríkisráðsfundum?

Hafi komið til ágreinings milli forseta og forsætisráðherra á ríkisráðsfundum, var sá ágreiningur bókaður? Hefur verið horfið aftur til tíma Sveins Björnssonar að þessu leyti? Hvað um gagnsæið í stjórnsýslunni og æðstu stjórn ríkisins? Var ekki eðlilegt að skýra frá ágreiningnum í ríkisráðinu á þeim tíma sem hann varð?