Mánudagur 04. 11. 13
Steingrímur J. Sigfússon lét í Kastljósi eins og hann hefði náð gífurlegum árangri við landstjórnina sem ráðherra. Fyrir kosningar þegar dómur kjósenda um verk hans var á næsta leiti ákvað hann að segja af sér af því að við blasti að flokkur hans mundi gjalda afhroð undir formennsku hans. Það var nauðvörn hans að draga sig í hlé. Katrínu Jakobsdóttur tókst að berja í brestina.
Meginástæðan fyrir falli Steingríms J. var að hann hafði hvað eftir annað haft rangt fyrir sér í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar út á við: Icesave-málinu. Niðurstaða EFTA-dómstólsins fól í sér lokadóminn um vanhæfni Steingríms J. í málinu og dómgreindarbrest hans.
Varnarrit Steingríms J. virðist öðrum þræði snúast um reiði hans í garð Ólafs Ragnars Grímssonar, helst má skilja umræður um bók Steingríms J. á þann veg að honum sé nú verr við Ólaf Ragnar en Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma. Þá er furðulegt að hlusta á gamla sönginn um að þingmönnum hafi verið nauðugur einn kostur að stefna Geir H. Haarde fyrir landsdóm.
Steingrímur J. sakar Ólaf Ragnar um einskonar valdarán með því að hafa stofnað til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, slæm hafi fyrri synjunin verið en verri hin síðari. Nú segir Steingrímur J. að hann líti ekki á ríkisráðsfundi sem umræðuvettvang en eftir að Ólafur Ragnar tók sér á ríkisráðsfundi frest til að rita undir Icesave-lög Steingríms J. sagði hann við fjölmiðla að hann sæi eftir að hafa ekki mótmælt Ólafi Ragnari á ríkisráðsfundinum.
Stutt sjónvarpssamtal við Steingrím J. segir auðvitað ekki alla söguna um bók hans.