11.11.2013 19:00

Mánudagur 11. 11. 13

Svonefndur hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar kynnti tillögur sínar í dag. Þar eru reifaðar ýmsar hugmyndir. Sumar hafa verið á döfinni árum saman. Þeim verður ekki hrundið í framkvæmd nema festa ríki í stjórnarháttum og samheldni sé innan ríkisstjórnar og þingmanna sem standa að baki henni. Kostur er að tillögurnar skuli birtar opinberlega til að stuðla að umræðum. Ókostur er að birtingin kann að vekja falskar vonir eða skapa ótta hjá þeim sem telja að sér vegið með þeim.

„Leki“ um efni tillagna nefndarinnar á trúnaðarstigi bendir til að ekki hafi ríkt algjör heilindi í þingmannahópnum. Sé svo veikir það framgang tillagna hans þegar á reynir. Það er næsta andkannalegt að þingmenn slái um sig með hugmyndum sem kannski komast aldrei í framkvæmd, skynsamlegt er að segja minna og láta verkin tala.

Meðal efnis tillagnanna má nefna að sameina skal úrskurðarnefndir og auka hagkvæmni í störfum þeirra. Skoðuð verði hagkvæmni þess að setja á stofn sérstakan stjórnsýsludómstól.

Engin rök eru með þessari tillögu frekar en öðrum. Ég veit um mál til meðferðar í úrskurðarnefnd sem hefur mest sex mánuði til að ljúka máli en nú nálgast biðin eftir úrskurði 18 mánuði. Þá eru þess dæmi að umboðsmaður alþingis sitji árum saman með mál til álitsgjafar.

Vissulega kann að vera hagræði að því að sameina aðila sem eiga að úrskurða um stjórnsýslumálefni og jafnvel að koma á fót nýjum dómstóli, stjórnsýsludómstóli. Mesta hagræðið fyrir hinn almenna borgara felst hins vegar í að málum hans sé sinnt innan þeirra fresta sem stjórnvöld og opinberar nefndir hafa til úrlausnar á málum. Óhagræðið af seinagangi og stundum að því er virðist tómlæti innan stjórnsýslunnar verður ekki alltaf mælt í peningum. Seinagangur og tómlæti er því miður köld staðreynd víða og leiða til þess að slaknar á öllum aga í kerfinu, það er dýrkeypt. Auðveldasta leiðin til að spara er sjá til þess að vandaðri vinnu sé skilað innan tímamarka.