14.11.2013 19:15

Fimmtudagur 14. 11. 13

Stjórnarandstæðingar óttast líklega að fjölgun aðstoðarmanna framsóknarráðherra verði til þess að auka fylgi þeirra. Ekki er unnt að leita annarrar skýringar á frumkvæði fréttastofu ríkisútvarpsins við að miðla til hlustenda í hádegisfréttum að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hefðu gert athugasemdir við ákvæði í stjórnarráðslagafrumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur. Það var ekki hlustað á athugasemdirnar og lögin sett með ákvæðunum sem gagnrýnd voru.

Af fréttinni í ríkisútvarpinu og útleggingu á henni má skilja að ekki sé við hæfi fyrir ráðherra Framsóknarflokksins og Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, að hafa fleiri en einn aðstoðarmann vegna gagnrýni þeirra á frumvarp Jóhönnu. Ástæða er til að velta fyrir sér hvers vegna fréttastofan vakti ekki máls á því við stjórnarmyndunina hvort ráðherrar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks treystu sér til að setjast í ráðherrastóla af því að þeir hefðu verið andvígir breytingunni á stjórnarráðinu.

Eitt er að eltast við stjórnmálamenn og spyrja þá um efndir kosningaloforða. Annað er að semja fréttir í þeim tilgangi að skamma þá fyrir að fara að lögum þótt þeir hafi lýst efasemdum eða andstöðu við lagasetningu á sínum tíma. Augljóst er að einhver spunaliði Samfylkingarinnar hefur lagt agn fyrir fréttamann ríkisútvarpsins sem beit auðvitað strax á öngulinn af hollustu við veiðimanninn.

Vissulega er ástæða til að velta fyrir sér hve marga aðstoðarmenn eðlilegt er að einn ráðherra hafi. Ég tel að hann eigi að vera einn en fjölgun þeirra var meðal annars rökstudd með stækkun ráðuneyta, því ætti pólitískum samstarfsmönnum innan ráðuneyta að fjölga.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, sem kom að því að semja stjórnarráðslögin lýsti ánægju sinni yfir fjölgun aðstoðarmannanna í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins og taldi það einnig sérstakt ánægjuefni að til aðstoðarmannsstarfa hefði ráðist þingmaður. Prófessorinn vill greinilega veg aðstoðarmannanna sem mestan og setur það svip á núgildandi stjórnarráðslög. Hvernig væri að ríkisstjórnin beitti sér fyrir breytingum á þeim?