12.11.2013 21:15

Þriðjudagur 12. 11. 13

Mótmælaalda gengur yfir Frakkland. Á Bretagne-skaga eru skipulega unnin skemmdarverk á ratsjám lögreglu. Af rúmlega 100 ratsjám á skaganum hafa  48 verið eyðilagðar í nóvember. Rauðhúfurnar, mótmælahreyfing gegn umhverfisskatti á Bretagne, hefur boðað til nýrra aðgerða 30. nóvember. Kennarar og nemendur mótmæla breytingum á stundatöflu í grunnskólum Frakklands. Eigendur smáfyrirtækja láta í ljós óánægju sína.

Fréttirnar af mótmælum og átökum við lögreglu í París mánudaginn 11. nóvember í tengslum við minningardag fallinna í fyrri heimsstyrjöldinni vekja óhug hjá mörgum Frökkum.  Manuel Valls innanríkisráðherra leggur sig fram um að draga úr ótta fólks með þeim orðum aðeins hafi verið menn úr litlum hópi hægri öfgamanna að ræða.

Frakklandsforseti sætti ekki aðeins mótmælum í París heldur einnig þegar flutti síðar sama mánudag ræðu í Oyonnax. Það var blístrað á meðan hann talaði og baulað á hann þegar hann hélt á brott úr ráðhúsi bæjarins undir kvöld. Var haft á orði að forsetinn hefði brugðið út af venju sinni og ekki heilsað um um 500 manns sem höfðu komið saman á ráðhústoginu. Bifreið hans hefði verið lagt svo að segja við dyr ráðhússins svo að forseti „litla mannsins“ þyrfti ekki að ganga of nærri almenningi. François Hollande nýtur nú aðeins stuðnings 21% kjósenda. Óvinsældir forsætisráðherrans eru álíka miklar. Innan raða þingmanna sósíalista eru vaxandi kröfur um afsögn ráðherrans.

Þetta er grafalvarlegt ástand. Ekki aðeins fyrir Frakka heldur allar þjóðir Evrópu en þó einkum evru-ríkin. Stjórn annars stærsta hagkerfisins á svæðinu er lömuð sökum eigin óvinsælda. Forsetinn og stjórnin eru á hröðum flótta undan sjálfum sér.