7.11.2013 23:55

Fimmtudagur  07. 11, 13

Í dag er dánardagur  Jóns Arasonar Hólabiskups og sona hans Björns og Ara. Þennan dag árið 1550 voru þeir teknir af lífi í Skálholti fyrir trú sína. Til að minnast þess voðaverks var í kvöld kl. 20.30 efnt til samkomu í Skálholtsdómkirkju og síðan gekk hópur fólks með logandi kyndla  í köldu rokinu að minnisvarða Jóns Arasonar biskups.

Ég ók Gunnari Eyjólfssyni leikara austur í Skálholt þar sem hann flutti orð til íhugunar við athöfnina. Sagði hann meðal annars frá för sinni með hóp kaþólskra Pólverja í Skálholt  og hátíðlegum viðbrögðum þeirra þegar þeir heyrðu að norðan við kirkjuna gengju þeir á jörð þar sem blóði píslarvotta hefði verið úthellt. Tóku þeir þá að syngja sálm og fara með bænir. Sagði Gunnar að Skálholt væri helgasti staður á Íslandi.

Jón Bjarnason organleikari lék við athöfnina og Margrét Bóasdóttir söng einsöng. Skálholtskórinn og Söngkór Miðdalskirkju sungu undir stjórn Jóns. Prestarnir sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup og sr. Egill Hallgrímsson sóknarprestur fluttu hugleiðingu og bæn auk þess sem Kristján Valur flutti Krosskvæði Jóns Arasonar.