Miðvikudagur 06. 11. 13
Enn hafa fundist merkar fornminjar frá víkingatímanum í Danmörku. Að þessu sinni nyrst á Jótlandi austanverðu eins og lesa má í þessari frétt á Evrópuvaktinni. Talið er að silfrið sem um er að ræða sé frá dögum Haralds Blátannar konungs. Silfur rak víkinganna langt austur og suður á bóginn, alla leið til Bagdad eins og sannast á arabísku myntinni sem fundist hefur á stöðum þar sem verslun hefur verið stunduð.
Fyrir skömmu kom út bókin The Vikings – New History eftir Neil Oliver, skoskan fornleifafræðing, sagnfræðing og útvarpsmann. Hann reisir frásögn sína mjög á því sem fundist hefur við fornleifarannsóknir. Í bókinni er að sjálfsögðu sagt frá Haraldi Blátönn. Hann hafi verið konungur Danmerkur og hluta Noregs, 958 til 986, en allt bendi til þess að einn sona hans hafi látið drepa hann. Hann hafi látið styrkja Danavirki sem hefði verið reist þvert yfir nyrsta hluta Jótlands á níundu öld til að verjast germönskum barbörum. Frægastur sé hann fyrir að sameina dreifða danska ættbálka í eina heild og tengja þá norskum nágrönnum sínum.
Oliver segir að Haraldi Blátönn hafi með öðrum orðum tekist að skapa tengsl milli hópa sem áður vildu ekki eiga nein samskipti sín á milli. Þessi hæfileiki hans hafi orðið til þess að Ericsson fyrirtækið ákvað að kenna tækni sem það þróaði vegna þráðlausra tenginga við hann, Bluetooth, Blátönn. Litla einkennismerkið sem er á öllum tækjum sem búa yfir blátannartækni eru upphafstafir Haralds Blátannar með rúnaletri og eru rúnastafirnir tveir festir saman. Eins og sést hér fyrir neðan.
Í þætti mínum á ÍNN í kvöld ræði ég við Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa meðal annars um skólamál í Reykjavík en yfir árangri í skólum hvílir svo mikil leynd að borgarfulltrúar eiga fullt í fangi með að fá nasasjón af honum. Þátturinn er næst sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.