25.6.2014 22:43

Miðvikudagur 25. 06. 14

Í dag ræddi ég við Börk Gunnarsson, blaðamann á Morgunblaðinu, í þætti mínum á ÍNN. Börkur var upplýsingafulltrúi NATO í Bagdag í Írak 2005 til 2006. Við ræddum um stöðuna í Írak um þessar mundir. Næst má sjá þáttinn á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Í dag komst Hæstiréttur Bandaríkjanna að þeirri niðurstöðu að lögregla mætti ekki rannsaka farsíma þeirra sem hún handtekur án þess að hafa til þess leitarheimild frá dómara. Þetta er niðurstaða sem markar tímamót og mun áreiðanlega hafa áhrif langt úr fyrir Bandaríkin. Nánar má lesa um þetta á Evrópuvaktinni.

Þessi bandaríski dómsúrskurður hlýtur að vekja athygli hér á landi þar sem menn ræða nú af hita um heimildir til saksóknara við rannsóknir mála og hvernig staðið er að úrskurðum um þær af hálfu dómara.

Í sjálfu sér er nýmæli að nú skuli athygli hér beinast að þeirri staðreynd að dómarar úrskurða og heimila hlerun en hvorki saksóknari né lögregla. Í hinum miklu hlerunarumræðum sem urðu hér árið 2006 og á árunum þegar ég var dómsmálaráðherra létu þeir sem hæst höfðu eins og dómsmálaráðherra hefði tekið ákvörðun um hleranir á fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum. Allt var þetta þá blásið upp á pólitískum forsendum og þeim til lítils sóma sem að því stóðu.

Gagnrýnin á hleranir nú er á öðrum grunni en á árunum 2003 til 2008. Þegar rætt er um formhlið málsins hljóta menn hins vegar að verða að líta til þeirra venja sem skapast hafa í áranna rás, til dæmis um það hver gengur með beiðni á fund dómara. Venja skiptir máli við framkvæmd stjórnarskrár og laga. Gildi hennar veiktist hins vegar í sakfellingu meirihluta landsdóms í málinu gegn Geir H. Haarde.