2.6.2014 20:30

Mánudagur 02. 06. 14

 

Nokkrar umræður hafa orðið um útsendingu ríkisútvarpsins eftir að kjörstöðum var lokað að kvöldi 31. maí. Áður en útsendingin hófst hafði hún verið rækilega kynnt og áhorfendur sjónvarps væntu mikils. Því miður stóð úrvinnsla úrslitanna ekki undir væntingum og miðað við það sem sjá má í erlendum sjónvarpsstöðvum við kynningu kosningaúrslita var þetta næsta gamaldags allt saman.

Vegna áhuga míns á úrslitum í Rangárþingi eystra, þar sem framsóknarmenn héldu meiriluta með minnihluta atkvæða og aðeins fimm atkvæða forskoti, hafði ég auga með fréttum frá talningarmönnum á Hvolsvelli. Það birtist hvað eftir annað borði neðst á skjánum þar sem aðeins var getið um B og D-listana en ekki var minnst á L-listann. Bogi Ágústsson var ekki alveg klár á heiti þriðja listans þegar hann fór yfir úrslitin.

Var einkennilegt að Boga var í senn falið að bregða mynd á skjáinn og ræða um hana. Leiddi það til þess að sömu skýringamyndirnar voru sýndar oftar en einu sinni og þess var ekki alltaf gætt að réttar nafnarunur birtust. Skondið var að sjá þá Boga og Ólaf Þ. Harðarson ræða spekingslega um tölur án þess að átta sig strax á að þær sýndu að meirihlutinn í Reykjavík væri fallinn.

Þá myndaðist spenna í samskiptum sjónvarpsmanna og formanns kjörstjórnar í Reykjavík. Klúðraðist þar eitthvað og virtust klögumál ganga á víxl. Raunar var yfirbragðið sem menn fengu af starfi kjörstjórnar í Reykjavík ekki á þann veg að yki traust á framkvæmd kosninganna þar.

Í raun var þetta allt dálítið bíó en líklega á annan hátt en stjórnendur kosningavökunnar ætluðu. Þá glímdi ríkisútvarpið einnig við vanda vegna þess að vefur þess hrundi og lá niðri í nokkrar klukkustundir þegar mest á reyndi.

Ríkisútvarpið hefur oft staðið sig betur en þetta á kosninganótt.