8.6.2014 22:50

Sunnudagur 08. 06. 14

Á ruv.is má lesa í dag:

„Með því að mynda meirihluta til hægri og vinstri sýnir Björt framtíð að flokkurinn er ekki afleggjari frá Samfylkingunni. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. Nýr meirihluti í Hafnarfirði kynnir málefnasamning á næstu dögum. […]

Björt Framtíð hefur myndað meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi og í Hafnarfirði og sömu flokkar ræða saman á Akranesi. Í Reykjavík hallar flokkurinn sér hins vegar til vinstri, með Samfylkingu, Vinstri grænum og Pírötum.

Ólafur Þ. Harðarson segir það ekkert nýtt að allir flokkar geti unnið saman. „En það er enn auðveldara í sveitastjórnum þar sem er ekki mikill málefnalegur ágreiningur. Björt Framtíð sýnir með þessu að hún getur myndað meirihluta bæði með Sjálfstæðisflokknum og líka til vinstri og með því er hún kannski að sýna fram á að það sé ekki rétt sem sumir hafa haldið fram hún sé bara svona afleggjari frá Samfylkingunni.“

Ólafur segir hugsanlegt að flokkurinn sé að taka við hlutverki Framsóknarflokksins á miðju stjórnmálanna. Þó sé erfitt að álykta um landstjórnarmál út frá sveitastjórnarkosningum.“

Lokaniðurstaða Ólafs Þ. er kaldhæðnisleg í ljósi umræðna um Framsóknarflokkinn um þessar mundir þegar ýmsir álitsgjafar útmála hann sem systurflokk þeirra sem berjast gegn innflytjendum innan ESB. Prófessorinn gefur til kynna að það sé laust rými í miðju stjórnmálanna og Björt framtíð ætli að fylla það og geri með samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í sveitarstjórnum.

Ég túlkaði afstöðu Bjartrar framtíðar á annan veg á Evrópuvaktinni í dag eins og lesa má hér.