10.6.2014 20:30

Þriðjudagur 10. 06. 14


Viðtal mitt á ÍNN við Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, um sveitarstjórnarkosningarnar er komið á netið og má sjá það hér.

Ummæli Sverris Ólafssonar, fjármálaverkfræðings og meðdómara í Aurum-málinu í héraðsdómi Reykjavíkur, um sérstakan saksóknara eru Sverri til skammar og veikja traust á dómstólnum reyni hann ekki að rétta hlut sinn á einhvern hátt hvað sem líður áfrýjun málsins.

Einn hinn sýknuðu er Jón Ásgeir Jóhannesson. Málaferli vegna hans virðast endalaus enda af nógu að taka eins og dæmin sýna. Jón Ásgeir notar sýknuna í Aurum-málinu til að slá um sig í Bretlandi og boða endurkomu sína þangað. Fréttirnar í Bretlandi bera með sér að enn starfi einhverjir almannatenglar fyrir Jón Ásgeir í Bretlandi.

Fréttastofa ríkisútvarpsins beitir þeirri aðferð við fréttir af þessu máli að leiða fram menn til skiptis. Í hljóðvarpinu klukkan 18.00 í dag var rætt við Gest Jónsson hrl., lögmann Jóns Ásgeirs. Hann talaði eins og sá sem getur sagt dómstólum fyrir verkum og minnti framkoman á yfirlætið sem hann sýndi oft þegar hann ræddi við fjölmiðla í Baugsmálinu.

Gestur tekur undir orð Sverris um að Ólafur Þór hafi af ásetningi sagt ósatt. Þá segir á ruv.is:

„Gestur Jónsson segir alveg ljóst að Sverrir hafi ekki verið vanhæfur í málinu. Hann telur einnig að ummæli Sverris í viðtalinu í gær hafi engin áhrif á gang málsins komi það til kasta Hæstaréttar. „Ég átta mig ekki á því hvernig ummæli sem hann lætur falla, sem augljóslega eru sögð þar sem manninum er ekki skemmt yfir ásökunum sem á hann eru bornar af sérstökum saksóknara, ég get ekki ímyndað mér hvernig það ætti að hafa þýðingu varðandi úrslit málsins.““

Fréttamaðurinn spurði að sjálfsögðu ekki hverjar hefðu verið „ásakanir“ sérstaks saksóknara. Hvað sagði Ólafur Þór sem kallar á slíkt orðalag af hálfu lögmannsins? Til að varpa ljósi á framgöngu Gests fyrir skjólstæðinga sína hefði átt að geta þess í fréttinni að hann hefði nýlega verið dæmdur í hæstarétti til að greiða réttarfarssekt vegna framgöngu sinnar í héraðsdómi Reykjavíkur.

 Sjá nánar um málið á Evrópuvaktinni.