Laugardagur 28. 06. 14
Innanríkisráðuneytið og Rauði krossinn gerðu nýlega samning um málefni hælisleitenda. Í honum felst meðal annars að Rauði krossinn sér hælisleitendum fyrir lögmönnum. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður hefur í áranna rás látið málefni hælisleitenda sig varða. Í dag lýsir hann í samtali við Reykjavík vikublað ótta um að lögmenn missi spón úr aski sínum vegna hins nýgerða samnings við Rauða krossinn. Hann harmar að samningurinn kunni að leiða til minni ríkisútgjalda og lætur að því liggja að lækkun útgjaldanna sé aðför að mannréttindum hælisleitenda.
„Þessi samningur þýðir auðvitað að lögmenn hætta almennt að fylgjast með því hvernig Útlendingastofnun hagar störfum sínum. Það dregur þá úr möguleikum lögmanna, og kannski áhuga, til að gera grein fyrir störfum stofnunarinnar og gagnrýna þar starfshætti,“ segir Ragnar. Hann hefur oft flutt hvassa gagnrýni á yfirvöld og talið hana í þágu hælisleitenda. Mín reynsla er að Ragnar hikaði ekki við að ganga of langt í yfirlýsingum um örlög einstaklinga sem vísað var úr landi.
Viðtalið við Ragnar sýnir að hann lítur þannig á að íslenska ríkið eigi að standa straum af kostnaði við störf lögmanna sem taka að sér að berjast fyrir málstað hælisleitenda gegn stofnunum ríkisins. Hann óttast að lögfræðingar sem þannig hafa starfað missi spón úr aski sínum, fé til Rauða krossins og lögfræðinga á hans vegum sé illa varið, ekki síst vegna þess að gert sé ráð fyrir að hlutlausri ráðgjöf af hálfu lögfræðinga Rauða krossins.
Þessi afstaða Ragnars Aðalsteinssonar skýrir hvers vegna oft er engu líkara en lögmenn hælisleitenda gangi frekar fram sem almannatenglar en lögmenn í hefðbundnum samskiptum við stofnanir ríkisins í þágu skjólstæðinga sinna. Yfirlýsingar lögmannanna hafa löngum átt greiða leið inn í fréttatíma ríkisútvarpsins og þær hafa verið gefnar til að vekja samúð með skjólstæðingum lögmannanna og ýta undir þá skoðun að yfirvöldin sýni óbilgirni.