22.6.2014 21:50

Sunnudagur 22. 06. 14

Í gær var hér minnst á að í fréttum ríkisútvarpsins hefði verið talað um „fjölsóttustu staðina“ á Hornströndum. Í dag flutti ríkisútvarpið upptöku á tónleikum Mahler-kammersveitarinnar í Eldborg, metnaðarfullum og glæsilegum tónleikum, stórtónleikum sagði kynnirinn og talaði einnig um að Mahler-sveitin væri með þeim „þéttbókuðustu“ í heimi. Þetta orðskrípi átti væntanlega að segja hlustendum að mikil spurn væri eftir hljóðfæraleikurunum og dagbækur þeirra væru mjög þéttbókaðar.

Á sunnudagskvöldum er þátturinn Hovedscenen á dagskrá NRK2-sjónvarpsstöðvarinnar. Þar eru sýndir listrænir viðburðir, óperur, ballettar (um síðustu helgi Svanavatnið frá Mariinskji leikhúsinu í St. Pétursborg) og tónleikar. Í kvöld er sýnt frá barokk-hátíð í Champs Elysée leikhúsinu í París. Skemmtilegt sjónvarpsefni og vel gert.