21.6.2014 21:25

Laugardagur 21. 06. 14

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var talað um „fjölsóttustu staði“ á Hornströndum þetta er eins og að lýsa „háttsettustu“ embættismönnum einshvers staðar í stað þess að nefna þá hina „hæst settu“. Áhyggjurnar á Hornströndum snúast um „mest sóttu“ staðina.

Undarlegt er hve þulir ríkisútvarpsins þylja oft dagskrárkynningu sem uppfyllingarefni í stað þess að leika tónlist úr því að dagskrárgerð er hagað þannig að hlé myndast. Stefin sem áður voru flutt til uppfyllingar eru horfin og í stað þeirra eru kynningar að dagskrá endurteknar. Kvað svo rammt að þessu í hádeginu að eini kosturinn var að slökkva á viðtækinu.

Vinstri-grænir (VG) efndu til flokksráðsfundar í dag og setti Björn Valur Gíslason, varaformaður flokksins, fundinn og sagði meðal annars:

„Það virðast vera skamm­tíma­sjón­ar­mið og ein­stök mál um­fram heild­ar­sjón­ar­mið og framtíðar­sýn sem ráða því hvernig kjós­end­ur ráðstafa at­kvæðum sín­um. Niðurstaða [sveitarstjórnar]kosn­ing­anna hlýt­ur að valda ákveðnum áhyggj­um.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði í ræðu sinni:

„Einn vandi íslenskra stjórnmála er að við hugsum í kjörtímabilum. En þegar við erum að ræða stóru málin þá dugir ekki að hugsa til næstu fjögurra ára. Þá þarf að hugsa til næstu 100 ára.“

Vinstri-grænir fóru illa út úr sveitarstjórnarkosningunum. Forysta flokksins hefur greint vandann: Það á að beina augum kjósenda til næstu 100 ára en fjögurra.