Laugardagur 14. 06. 14
Hrifning ýmissa fjölmiðlamanna á uppátækjum Jóns Gnarrs hefur haft áhrif á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, sem velur tímaritið Monocle til að skýra frá því að hann ætli ekki að gefa kost á sér til endurkjörs á Bessastaði árið 2016 með orðunum: „En tuttugu ár í þessum bransa er langur tími.“
Monocle er lýst sem blöndu af tímaritunum Foreign Policy og Vanity Fair, það er af tímariti um alþjóðamál og lífsstíl. Tímaritið kom fyrst út árið 2007 og birtast 10 hefti á ári.
Fréttir um framtíðaráform Ólafs Ragnars höfðu ekki fyrr borist til landsins eftir þessari einkennilegu leið en gamall samstarfsmaður hans, Már Guðmundsson seðlabankastjóri, sagði við fjölmiðlamenn að hann mundi greina frá því í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 sunnudaginn 15. júní hvort hann ætlaði að sækja um embætti seðlabankastjóra að nýju. Aðferðin sem Már velur bendir til þess að hann ætli ekki að sækja um embættið að nýju.
Ríkisendurskoðun hefur ekki enn kynnt niðurstöðu rannsóknar sinnar á launamálum Más. Hann fór illa af stað sem seðlabankastjóri fyrir fimm árum þegar hann lenti í launadeilu þar sem hann taldi ekki staðið við það sem hann vænti þegar hann ákvað að taka skipun í embættið. Þá hefur umboðsmaður alþingis til skoðunar kvörtun vegna embættisfærslu Más. Vekur undrun þeirra sem til þekkja hve langan tíma það hefur tekið umboðsmann að komast að niðurstöðu í málinu.
Að forseti Íslands og seðlabankastjóra skuli kjósa þessar leiðir til að koma mikilvægum upplýsingum til þjóðarinnar er ekki í ætt við neitt annað en furðulegheit Jóns Gnarrs þótt hvorugur þeirra hafi ákveðið að fara í furðufatnað til að vekja athygli á sér.