26.6.2014 19:50

Fimmtudagur 26. 06. 14

Hilmar Þorsteinsson kærði í apríl 2014 þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja honum um aðgang að niðurstöðum PISA-könnunar 2012, sundurliðuðum eftir grunnskólum borgarinnar. Reykjavíkurborg synjaði beiðninni m.a. á þeim forsendum að um vinnugögn væri að ræða. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á það. Þá taldi hún ekki vera í þeim upplýsingar sem féllu undir lög um persónuvernd. Því bæri Reykjavíkurborg að afhenda kæranda afrit af gögnunum. Þetta segir í úrskurði nefndarinnar frá 24. júní 2014.

Fagna ber þessari niðurstöðu um leið og lýst er undrun yfir hve hart embættismenn Reykjavíkurborgar hafa lagt að sér til að komast hjá því að afhenda gögnin sem hér um ræðir. Með vísan til þeirra geta allir áhugamenn um bætt skólastarf, foreldrar og aðrir, fengið aðgang að upplýsingum sem gefa vísbendingar um gæði skólastarfs. Miðlun þessara upplýsinga er forsenda nauðsynlegs aðhalds að skólastarfi.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, beitti sér mjörg fyrir að aðgengi almennings að upplýsingum um innra starf skóla yrði aukið. Talaði hún fyrir daufum eyrum á æðstu stöðum í stjórnkerfi borgarinnar. Nú liggur hins vegar ljóst fyrir að það er ekki farið að lögum þegar því er neitað innan borgarkerfisins að miðla upplýsingum af því tagi sem fást á grundvelli PISA-könnunarinnar.