30.6.2014 22:00

Mánudagur 30. 06. 14

Berlingske Media í Danmörku sem gefur út Berlingske Tidende hefur verið selt til belgíska útgáfufélagsins  De Persgroep. Það var félagið Mecom sem seldi og voru þetta þriðju eigendaskiptin á elsta blaðaútgáfufyrirtæki Danmerkur á tæpum15 ár. Ferðin hófst árið 1999 þegar Mærsk Mc-Kinney Møller, eigandi og stjórnandi stórfyrirtækisins A.P. Møller, ákvað að selja hlutabréf sín í Berlingske.

Sagan segir að Mc-Kinney Møller hafi reiðst vegna skrifa í Berlingske Tidende um að faðir hans hafi verið hluthafi í fyrirtæki sem seldi Þjóðverjum vopn í síðari heimsstyrjöldinni. Árið 1982 hafði A.P. Møller-Mærsk tekið höndum saman með Danske Bank og Calsberg og bjargað Berlingi frá gjaldþroti. Sumir segja hins vegar að hann hafi selt bréfin 1999 vegna alþekkts viðskiptalegs innsæis. Hann hafi séð hvert stefndi í blaðaútgáfu á tímum rafrænna miðla.

Det Berlingske Officin hét blaðaútgáfan þá og árið 2000 keypti norska stórfyrirtækið Orkla hana. Meginrekstur þess snerist um matvöruverslanir en Berlingske og systurblöðin BT og Weekendavisen voru felld undir deildina Orkla Media. Þar voru blöðin í sex ár þar til breska fjárfestingarfyrirtækið Mecom sem átti blöð í Þýskalandi og Hollandi keypti blöðin og breytti nafni félagsins í Berlingske Media.

Nýi eigandinn, De Peersgroup gefur meðal annars úr mest selda dagblað Belgíu Het laatste Nieuws og fjögur hollensk dagblöð og er Algemeen Dagblad (AD) stærst.

Hér er sögð enn ein sagan af uppnáminu sem víða ríkir í blaðaheiminum vegna aðlögunar hans að hinum leiðum til upplýsingamiðlunar.