15.6.2014 22:30

Sunnudagur 15. 06. 14

Ég spáði því hér í gær að Már Guðmundsson seðlabankastjóri mundi ekki ætla að sækja að nýju um embætti seðlabankastjóra og hann mundi tilkynna ákvörðun sína um það í viðtalsþættinum Eyjunni á Stöð 2 í dag. Mér skjátlaðist. Már ætlar að sækja um, frá því skýrði hann í sjónvarpsþættinum. Þá er bíða eftir að sjá hvaða einkunnir ríkisendurskoðandi og umboðsmaður alþingis gefa honum.

Ástandið versnar í Úkraínu með meira mannfalli en áður vegna hernaðarátaka. Blóðug átök eru í Sýrlandi og Írak, nýtt ríki ofstækismanna kann að koma til sögunnar. Spennan eykst milli Kínverja og Víetnama vegna ágreinings um yfirráð á Suður-Kínahafi. Japanir og Filippseyingar telja Kínverja beita sig órétti. Athygli beinist að herjum landanna. Ríkisstjórn Nígeríu getur ekki tryggt öryggi borgara sinna eða bjargað um á annað hundrað skólastúlkum sem hryðjuverkamenn rændu. Stjórnendur Evrópuríkja vara við hættunni af því að óvinir evrópskra þjóðfélaga, þjálfaðir í stríðinu í Sýrlandi láti að sér kveða með ógnarverkum í evrópskum borgum. Í Bandaríkjunum er stjórnkerfið sífellt í viðbragðsstöðu af ótta við nýja hryðjuverkaárás.

Þetta er dapurleg mynd sem boðar okkur óvissa og jafnvel hættulega framtíð. Hún vekur jafnvel spurningar um hvernig þriðja heimsstyrjöldin verður skilgreind þegar fram líða stundir.