23.6.2014 20:30

Mánudagur 23. 06. 14

Í dag hlýddi ég á doktorsvörn Sumarliða R. Ísleifssonar sagnfræðings í hátíðarsal Háskóla Íslands. Hann varði þar ritgerð sína um ímynd Íslands og Grænlands frá miðöldum til miðrar 19. aldar eins og hún birtist í erlendum ritum, einkum enskum og þýskum. Var fróðlegt að kynnast útlistunum doktorsefnisins á þessu viðfangsefni og viðræðum hans við andmælendur. Í lokin varð hann dr. Sumarliði og fagnaði fjölmennur hópur áheyrenda honum með lófataki.

Ástráður Eysteinsson, forseti hugvísindasviðs háskólans, setti samkomuna og sagði að um 500 manns stunduðu nú doktorsnám í Háskóla Íslands og Sumarliði væri hinn 10. frá 2008 sem verði doktorsritgerð við sagnfræðideild skólans. Þetta er mikil gróska en við brautskráningu úr HÍ laugardaginn 21. júní sagð Kristín Ingólfsdóttir rektor meðal annars:

„Í þessari viku var birtur nýr listi yfir 3.000 áhrifamestu vísindamenn í heimi. Meðal þeirra er  Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild, en hann er handhafi tveggja einkaleyfa sem ég nefndi hér að framan.  Á listanum er einnig Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við Læknadeild. Þar eru líka níu aðrir vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar.   Á Íslandi starfa þannig 11 af 3.000 áhrifamestu vísindamönnum í heiminum.  Sú hlutdeild jafnast á við að hér búi 26 milljónir manna en ekki 320 þúsund.“

 

Í nýjasta hefti hins heimskunna bandaríska tímarits Foreign Affairs er grein sem heitir New World Order - Labor, Capital, and Ideas in the Power Law Economy eftir Erik Brynjolfsson, Andrew McAfee, and Michael Spence. Erik Brynjolfsson  er kynntur á þennan veg: Schussel Family Professor of Management Science at the MIT Sloan School of Management and Co-Founder of MIT's Initiative on the Digital Economy.

Sé Google spurður um Erik Brynjolfsson kemur meðal annars upp símasamtal sem Páll Þórhallsson, þá blaðamaður á Morgunblaðinu, nú skrifstofustjóri löggjafarmála í forsætisráðuneytinu, átti við Erik árið 1994. Þar segir í upphafi:

- Góðan dag, ég heiti Páll Þórhallsson blaðamaður á Morgunblaðinu. Er þetta Erik Brynjólfsson?

Já.

- Ég var að lesa í The Economist um rannsóknir þínar á áhrifum tölvuvæðingar á framleiðni fyrirtækja. Nafnið vakti athygli mína, ertu af íslenskum ættum?

Já, reyndar. Faðir minn, Ari Brynjólfsson, er Akureyringur. Ég fæddist í Danmörku en ólst upp í Bandaríkjunum.

- Hefurðu komið til Íslands?

- Já, nokkrum sinnum. Ég á þar ættingja eins og Áslaugu Brynjólfsdóttur fræðslustjóra.