12.6.2014 19:15

Fimmtudagur 12. 06. 14

Móðir Dags B. Eggertssonar  borgarstjóra segir í netsamtali við Ernu Indriðadóttur að hún hafi sagt upp Morgunblaðinu vegna þess hvernig þar var skrifað um Gauta, son hennar, hagfræðing í Bandaríkjunum.

Þessi ummæli minna á hve mikilvægt er að geta valið og hafnað þegar um fjölmiðla er að ræða. Þetta getum við ekki þegar ríkisútvarpið er annars vegar og á höfuborgarsvæðinu verða menn að setja sérstakan límmiða á póstkassann vilji þeir ekki fá Fréttblað Jóns Ásgeirs í hann.   Úti á landi er mönnum í sjálfsvald sett hvort þeir ná í Fréttablaðið á sölustað.

Frá blautu barnsbeini hafa öll dagblöðin komið á heimili mitt þar til ég hætti að hafa áhuga á DV. Ég minnist þess ekki að foreldrar mínir hafi haldið blaði frá heimilinu þótt illa væri skrifað um föður minn. Eftir að ég tók til við að skrifa í blöð og lenda í deilum eða sæta gagnrýni man ég ekki eftir að nokkru sinni hafi verið rætt um að útiloka blað frá heimilinu.

Eitt er að kæra sig ekki um að vera áskrifandi að blaði annað að lýsa opinberlega yfir að maður vilji ekki lesa blaðið vegna skoðana sem það birtir.

Með rafrænum aðferðum ætti að mega innheimta gjöld af notendum ríkisútvarpsins eftir því hvenær þeir kveikja á stöðinni, að minnsta kosti virðist unnt að meta áhorf á sjónvarp á þann hátt. Hvers vegna ætli enginn vinni að framgangi slíks frelsis notenda á sviði fjölmiðlunar?

Byltingin við miðlun og öflun frétta og upplýsinga skapar okkur meira frelsi en okkur er tamt að viðurkenna af því að við lítum á allar breytingar til góðs sem sjálfsagðan hlut. Misnotkun á internetinu er svo mikil að sérfróðir menn spá takmörkunum á frelsinu sem þar ríkir og segja að við sem höfum nýtt okkur það í um aldarfjórðung séum hinir einu í sögunni sem kynnumst slíku frelsi.