4.6.2014 22:15

Miðvikudagur 04. 06. 14

Á ÍNN í kvöld á miðnætti og á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun má sjá viðtal mitt við Kjartan Gunnarsson, fyrrv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, um sveitarstjórnarkosningarnar.

Á eyjan.is segir í dag frá fundi Samstöðu um þjóðarhagsmuni, þverpólitísks hóps í Hörpunni. Þar hafi Jón Sigurðsson, fv. ráðherra, seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins, talað. Þá segir:

„Margir úr þeim hópi [samstöðu] koma að myndun nýs evrópusinnaðs stjórnmálaflokks, Viðreisnar, sem á að vera staðsettur hægra megin við miðju stjórnmálanna, til dæmis Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur og framkvæmdastjóri Talnakönnunar. Jón segir í samtali við Eyjuna að Viðreisn hafi ekki staðið ein að fundinum í dag, stofnfundur hennar verði í næstu viku.

En ætlar Jón að ganga til liðs við hina nýju Viðreisn og er hann á leið úr Framsóknarflokknum?

„Ég er ekki á neinni leið – en hef reyndar ekki getað kosið minn gamla flokk um skeið,“ segir Jón.

Hann ræddi svonefnd moskumál Framsóknarflokksins í Reykjavík í kvöldfréttum beggja sjónvarpsstöðva og sagðist þar telja að atburðarrásin í svokölluðu moskumáli hafi verið úthugsuð, bæði hjá oddvita flokksins í Reykjavík, sem og hjá núverandi formanni. Skortur á viðbrögðum megi túlka sem mikla stefnubreytingu hjá flokknum.“

Lokayfirlýsing Jóns varpar öðru ljósi á aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna af hálfu framsóknarmanna en áður hefur verið gert. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hefur látið eins og um hugdettu sína væri að ræða en ekki þaulskipulagða kosningabaráttu.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagði í 10-fréttum sjónvarps í kvöld að menn segðu ýmislegt í hita kosningabaráttunnar og gaf þar með til kynna að um óskipulagða uppákomu hafi verið að ræða.

Hvort hefur Jón Sigurðsson eða Eygló rétt fyrir sér? Sveinbjörg Birna veit svarið.