7.6.2014 23:30

Laugardagur 07. 06. 14

Í dag ók ég fram og til baka úr Fljótshlíðinni. Mikil umferð var á móti þegar ég ók til höfuðborgarinnar og nokkur að austan þegar ég hélt aftur í Fljótshlíðina. Hér í Hlíðinni er mikill fjöldi húsbíla, greinilega félagsmót. Auk þess eru hundruð annarra gesta.

Um þessa helgi eins og flestar sumarhelgar eru hér um slóðir jafnmargir einstaklingar og á fjölmennri útihátíð. Sá er munurinn að nú þegja fjölmiðlar um þessa mannfagnaði öfugt við það sem gerist um verslunarmannahelgina. Þá er ekki eins mikið talað um löggæslu núna eins og fyrstu helgina í ágúst.

Bílaumferðin var róleg og skipuleg. Ég sá tvo lögreglubíla á leiðinni austur. Hinn síðari ók á bakvið rútu og sást því ekki fyrr en ekið var fram hjá rútunni sem kom á móti mér. Skömmu áður en ég mætti þessum lögreglubíl þaut maður á mótorhjóli fram hjá mér, örugglega á um 150 km hraða. Hann tók eftir lögreglubílnum um leið og hann skaust fram hjá honum, hægði á sér, leit til baka eins og hann ætti von á að verða eltur. Þegar það gerðist ekki, gaf hann í að nýju og hvarf á örskots stundu.

Á árum áður höfðu yfirvöld einkum áhyggjur af hópi fólks sem kom saman á Þingvöllum um hvítasunnu og skemmti sér í tjöldum.