3.6.2014 22:00

Þriðjudagur 03. 06. 14

Í kvöld er danska sjónvarpið (DR2) helgað Lars Løkke Rasmussen, formanni Venstre-flokksins. Aðalstjórn flokksins situr á fundi í Odense og er búist við að flokksformaðurinn verði neyddur til að segja af sér. Flokkurinn er í frjálsu falli eftir að upplýst hefur verið um fjárstuðning flokksins til formannsins til fatakaupa, ferðalags til Mallorka fyrir konu hans og son auk þess sem reiddar hafa verið aukagreiðslur fyrir hans svo að hann megi reykja á hótelherbergjum þar sem hann býr.

Það er sýnd löng heimildarmynd um feril Lars Løkkes Rasmussens og rætt við fjölda fólks. Til dæmis er farið með blaðamanninum á Ekstra Bladet sem skrifaði fréttina um fatastyrkin (152.000 d. kr.) og farið með honum að herrafataversluninni þar sem Lars Løkke Rasmussen keypti föt og skó.

Vandi Venstre-flokksins er ekki þessi einstöku mál heldur hitt að hvað eftir annað beinist athygli að formanninum vegna atvika sem hneyksla fólk og þykja bera vott um brenglaða dómgreind.

Þá tapaði Venstre-flokkurinn fylgi í ESB-þingkosningunum hinn 25. maí. Eftir þær brotnuðu varnarveggir flokksformannsins og er augljóst að DR telur víst að dagar Lars Løkkes Rasmussens sem flokksformanns séu taldir.

Undir miðnætti að dönskum tima sagði fréttamaður DR að allt benti þó til þess að á hinum langa aðalstjórnarfundi hefði flokksformaðurinn snúist til varnar og ætlaði að berjast fyrir pólitísku lífi sínu. Fjöldi blaðamannafundi fylgist með fundinum og eru sammála um að ár og dagur séu síðan slíkt ástand hefði skapast í dönskum stjórnmálum.