13.6.2014 22:15

Föstudagur 13. 06. 14

Furðuleg grein eftir Jón Ásgeir Jóhannesson birtist í blaði hans, Fréttablaðinu, í dag. Hann segist hafa verið hundeltur að ástæðulausu af íslenska réttarkerfinu í 12 ár. Greinin er skrifuð í tilefni af því að Jón Ásgeir var sýknaður í héraðsdómi Reykjavíkur í svonefndu Aurum-máli. Eftir að dómurinn var felldur hljóp ólöglærður meðdómari á sig og veittist að embætti sérstaks saksóknara. Jón Ásgeir gerir hið sama og gagnrýnir sérstaklega tvo nafngreinda lögreglumenn.  Þessi samhljómur í málflutningi meðdómarans og hins sýknaða er óvenjulegur.

Á Evrópuvaktinni vek ég athygli á þeirri þverstæðu að Jón Ásgeir vitnar í tölvubréf til að sanna þá fráleitu kenningu sína að pólitískar ofsóknir gegn sér hafi breyst í lögreglumál þótt í Aurum-málinu hafi það átt þátt í sýknu Jóns Ásgeirs að dómararnir töldu tölvubréf haldlaus sönnunargögn. Um þetta má lesa hér.

Framsóknarflokkurinn jók fylgi sitt snarlega á síðustu dögum kosningabaráttunnar vegna athyglinnar sem Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddvitinn á lista þeirra, vakti með ummælum sínum um moskulóðina í Reykjavík. Árásirnar á Sveinbjörgu Birnu stuðluðu að fylgisaukningunni.

Hinar hörkulegu umræður vegna þessa máls valda titringi í innviðum Framsóknarflokksins að kosningum loknum. Gamlir forystumenn og ráðherrar flokksins, Ingvar Gíslason og Guðni Ágústsson, leitast við að skrifa flokkinn frá þeirri mynd sem upp hefur verið dreginn af honum. Ingvar gekk svo langt í grein í Fréttablaðinu að leggja til að Sveinbjörg Birna segði af sér.

Í raun þarf engan að undra að hrikti í flokki sem hefur skilgreint sig sem miðjuflokk þegar hann er settur á bás með flokkum á borð við Þjóðfylkinguna í Frakklandi. Það er hins vegar öfgafullt að bregðast þannig við vegna orða Sveinbjargar Birnu og ber aðeins vott um að menn vita ekki hver er boðskapur Þjóðfylkingarinnar eða annarra flokka innan ESB með svipuð sjónarmið.