19.6.2014 22:55

Fimmtudagur 19. 06. 14

Viðskiptafréttir eru ekki sterkasta hlið fréttastofu ríkisútvarpsins, raunar þekkjast þær ekki sem sérstakur liður í dagskránni eins og almennt er í útvarps- og sjónvarpsstöðvum. Líklega er þetta vegna hefðar sem skapast hefur á fréttastofunni. Hún hefur í áranna rás almennt verið hallari undir ríkisrekstur en einkaframtakið.

Vanmáttur fréttamanna til að fjalla um viðskiptamál birtist greinilega í Spegli fréttastofunnar í dag þegar rætt var um viðskipti orkufyrirtækja með grænar heimildir. Hér verður ekki gerð tilraun til að endursegja það sem flutt var áheyrendum, í mínum eyrum var það einfaldlega óskiljanlegt.

Hafi fréttamaðurinn skilið hvað viðmælandi hans sagði hefði hann átt að setja það fram á þann hátt að skiljanlegt yrði fyrir áheyrendur. Framsetningin var hins of flókin til að vekja trú á að fréttastofan vissi hvernig ætti að setja efnið í aðgengilegan búning fyrir hinn almenna hlustanda.