5.6.2014 22:15

Fimmtudagur 05. 06. 14

Skömmu fyrir kosningar til borgarstjórnar hinn 31. maí birtist frétt um fyrirhugaða nýbyggingu við Borgartún. Málið var borið undir Hjálmar Sveinsson úr Samfylkingunni, varaformann skipulagsnefndar, og svaraði hann út í hött auk þess fólk hefði ekki gert athugasemd á réttum tíma.

Eftir kosningar bárust fréttir um rúmlega aldargamlan silfurreyni við Grettisgötu í Reykjavík. Hann ætti að fella til að rýma fyrir byggingum. Mikil óánægja ríkti meðal íbúa. Þeir hefðu efnt til undirskriftasöfnunar í mótmælaskyni og ætluðu að leggja fram kæru fengjust engin svör.

Í frétt ríkisútvarpsins um málið sagði mánudaginn 2. júní:

„Hjálmar Sveinsson, varaformaður skipulagsráðs í Reykjavík, sat í borgarráði þegar ákvörðunin var tekin. Hann segir að skipulagsbreytingar hafi verið samþykktar í febrúar þar sem horfið hafi verið frá stærri framkvæmdum við reitinn, þar sem meðal annars var gert ráð fyrir bílastæði og niðurrifi. Með breytingunni er gert ráð fyrir að húsin verði friðuð og flutt til, byggingamagnið minnkað.

Ákvörðun um framkvæmdirnar, sem og flestar aðrar, gætu í einhverjum skilningi verið afturkræfar.

„En ég tel ekki að þessi ákvörðun, það er að segja deiliskipulagið í heild sinni verði afturkallað. Kannski yfirsást mönnum þessi fallegi reynir hérna. Nú sitjum við uppi með það hvað getum við gert við hann. Getum við bjargað honum? Og nú er garðyrkjustjóri að skoða möguleikann á því að hreinlega ná honum upp og færa hann," segir Hjálmar Sveinsson.“

Á mbl.is þriðjudaginn 3. júní sagði:

„Ylfa Dögg Árna­dótt­ir, íbúi á Grett­is­götu 13, seg­ir í um­fjöll­un um mál þetta í Morg­un­blaðinu í dag,  að úr­sk­urður Minja­stofn­un­ar verði kærður til úr­sk­urðar­nefnd­ar. Hjálm­ar Sveins­son, vara­formaður skipu­lags­nefnd­ar Reykja­vík­ur, seg­ir að nýtt deili­skipu­lag hafi verið aug­lýst 23. des­em­ber síðastliðinn og að frest­ur til at­huga­semda hafi runnið út sex vik­um síðar án þess að nokk­ur slík hefði borist.“

Eftir fjögurra ára setu Jóns Gnarrs sem borgarstjóra var kjörsókn lítil í Reykjavík og flokkur hans sem bauð fram undir nýju nafni galt afhroð, tapaði fjórum borgarfulltrúum, fékk tvo í stað sex. Þá hefur verið haldið á kynningu mála gagnvart almenningi á þann hátt sem fram kemur í fréttunum þar sem Hjálmar Sveinsson kemur á vettvang til að svara fyrir hönd yfirvalda. Borgararnir eru ávallt of seinir á sér og verða beygja sig undir vilja yfirvaldanna.

Lýðræði hefur ekki eflst í Reykjavík á árunum 2010 til 2014 og yfirvöldin gera ekkert með andmæli almennings. Þau eru alltaf of seint á ferðinni eða höfð að engu eins og í flugvallarmálnu.