1.12.2016 14:15

Fimmtudagur 01. 12. 16

Samtal mitt á ÍNN við Sverri Jakobsson prófessor um bók hans Auðnaróðal er komið á netið og má sjá það hér.

Í dag eru 98 ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Eins og fram kemur í lok samtals okkar Sverris sköpuðu Íslendingar sér strax sérstöðu innan norska konungdæmisins. Þeim var gert skylt að taka upp lög konungsins, norsk lög í Járnsíðu, en þeir löguðu þau að eigin þjóðfélagi með breytingum og við það varð til lögbókin Jónsbók árið 1281. Sum ákvæði Jónsbókar eru enn í íslenska lagasafninu, hvort þau gilda ræðst að lokum af afstöðu dómstóla.

Sverrir benti á að strax með setningu Jónsbókar hefðu Íslendingar skapað sér sérstöðu innan norska ríkisins. Þeir hefðu einnig áréttað sérstöðu sína við siðaskiptin árið 1550.

Guðmundur Hálfdanarson prófessor segir á Vísindavef Háskóla Íslands:

„Staða Íslands gagnvart Danmörku var alla tíð frekar óljós og umdeild, og breyttist verulega í tímans rás. Upphaflega komst landið undir Danakonung við samruna norsku og dönsku krúnanna seint á 14. öld og taldist þá ekki hluti Danmerkur heldur norskt skattland undir stjórn sameiginlegs konungs Danmerkur og Noregs.

Með vaxandi miðstýringu frá Kaupmannahöfn, einkum eftir siðaskiptin um miðja 16. öld og innleiðingu einveldis í konungdæminu á 7. áratug 17. aldar, styrktist vald Danakonungs yfir landinu. Staða einstakra hluta þessa flókna ríkis var þó aldrei mjög skýr, því að þótt markmið Danakonunga, eins og allra annarra evrópskra einvaldskonunga, væri að koma á samræmdri stjórn innan ríkisins alls, þar sem allt endanlegt vald væri í höndum hins fullvalda konungs, þá tókst það aldrei að fullu. Þannig voru fjarlægir hlutar ríkisins, eins og Ísland, alla tíð tiltölulega sjálfstæðir um eigin innri málefni og lagareglur voru aldrei algerlega samræmdar í ríkinu öllu.“

Sérstaða Íslands var alla tíð á þann veg að ekki var með réttu unnt að kalla landið nýlendu. Hvort það var hjálenda er umdeilanlegt en þó lýsir orðið stöðu landsins á réttmætari hátt en að segja Ísland nýlendu sem þó margir gera.

Hvað sem ágreiningi um þetta varðar hlutu Íslendingar fullveldi 1. desember 1918 og síðan fullt sjálfstæði 17. júní 1944.