3.12.2016 18:30

Laugardagur 03. 12. 16

Við vorum 39 á rangæskri bókamessu hjá okkur í Hlöðunni á Kvoslæk í dag. Það var dimmt yfir, rigningarsuddi og um 8 stiga hiti. Þegar við ákváðum þennan dag gátum við eins búist við snjókomu og kulda.  Við Rut skipulögðum bókakynninguna í samvinnu við Bjarna Harðarson, bóksala og útgefanda á Selfossi.

Bjarni á bókaútgáfuna Sæmund og voru fjórar bækur hans kynntar: Þórður Tómasson í Skógum las úr bók sinni: Mjólk í mat, sr. Sváfnir Sveinbjörnsson úr bók sinni: Á meðan straumarnir sungu. Systkinin Ásgeir og Sigrún Sigurgestsbörn hafa skrifað bók um formóður sína: Hólmfríðar saga sjókonu en Ásgeir las úr henni. Guðmundur Óli Sigurgeirsson, kennari á Kirkjubæjarklaustri, las úr bók sinni: Við ána sem ekki var. Bókaútgáfan Hólar gefur út bókina Sigurðar sögur dýralæknis og las höfundurinn, Sigurður Sigurðarson dýralæknir úr henni.

Þórður Tómasson safnvörður í Skógum, fæddur 28. apríl 1921, 95 ára, var aldursforseti meðal höfunda og gesta. Hann hafði ekki komið að Kvoslæk eftir að við endurreistum staðinn. Áður var hann hér nokkrum sinnum meðal annars þegar hann tók niður gamla hlóðaeldhúsið sem nú má sjá í safninu í Skógum. Hann er ótrúlega ern og ekur sjálfur sem ekki er auðvelt í dimmviðrinu sem nú er. Hann las ekki aðeins úr bók sinni heldur fór utan að með ljóð og bæn. Fram kom að hann hefði gefið út 21 bók og væri með tvær í smíðum.