29.12.2016 10:15

Fimmtudagur 29. 12. 16

Viðtal mitt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN í gærkvöldi vakti athygli víða.  Það má sjá áfram í dag klukkan 12.00, 14.00, 16.00 og 18.00 fyrir utan að vera á tímaflakki Símans. Þá má sjá þáttinn hér.

Draga má þá ályktun af viðtalinu að Bjarna finnist nýrri ríkisstjórn skorinn of þröngur stakkur styðjist hún aðeins við 32 þingmenn, það er eins atkvæðis meirihluta. Þannig yrði staðan ef sjálfstæðismenn mynduðu stjórn með þingmönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Það hefur örugglega ekki orðið til að auka bjartsýni Bjarna um innri styrk slíkrar ríkisstjórnar hve langar og strangar stjórnarmyndunarviðræður hans við tvíhöfðana Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé hafa verið. Í fréttum um viðræður þeirra kemur meira að segja fram að enn sé ágreiningur um ESB-málið.

Í viðtalinu á ÍNN lýsti Bjarni skoðun sinni á þann veg að yrði ESB-aðild hreyft að nýju yrði alþingi að taka ákvörðun um að sækja um aðild og síðan yrði að bera þá samþykkt þingsins undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Hann vék jafnframt þungum gagnrýnisorðum að samþykkt þingsins frá 16. júlí 2009.

Umsóknin var 2009 var meingölluð, samþykkt með fyrirvara um að hlaupa mætti frá henni, aðildarferlinu var siglt í strand og því hætt af þeim sem sendu umsóknina til Brussel. Síðan var umsóknin formlega afturkölluð af réttum íslenskum yfirvöldum. Í öllu ferlinu kusu ESB-menn að slá úr og í gagnvart Íslandi og einnig eftir afturköllunina. Þetta er þeirra háttur eins og blasir nú við Bretum eftir ákvörðun þeirra um ESB-úrsögnina.

Sé enn ágreiningur um ESB-málið milli Bjarna og viðmælenda hans frá Viðreisn og Bjartri framtíð getur hann ekki stafað af öðru en því að viðmælendurnir haldi fast í þá skoðun að ályktun alþingis frá 2009 eigi enn að liggja til grundvallar í samskiptum íslenskra stjórnvalda og ESB. Fastheldni í þessa afdönkuðu samþykkt felur í sér skilningsleysi á eðli hennar og öllu sem síðan hefur gerst í samskiptunum við ESB, meira að segja dauði ESB-flokksins, Samfylkingarinnar, dugar ekki til að opna 2009-mannanna í ESB-málum.