4.12.2016 13:15

Sunnudagur 04. 12. 16

Forsetakosningar fara fram í Austurríki í dag og þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingar á Ítalíu.

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, segir að verði niðurstaðan sigur sinn og já-manna verði Ítalía öflugasta ríkið innan ESB með pólitíska óvissu að baki. Bretar eru á útleið, Frakkar kjósa nýjan forseta vorið 2017 og Þjóðverjar nýtt þing haustið 2017. Við brottför Breta verða Ítalir með þriðja öflugasta hagkerfið innan ESB. Framtíð þess er þó óviss hvernig sem atkvæðagreiðslan fer í dag. Bankakerfi Ítalíu rambar á barmi hruns og seðlabanki evrunnar hefur haldið því á floti. Hvort og hvernig það verður gert áfram eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna kemur í ljós.

Andstæðingar Renzis vilja ekki aðeins hindra framgang stjórnarskrárbreytinganna heldur beina þeir spjótum sínum einnig að aðild Ítala að evru-samstarfinu og ESB.

Í Austurríki keppa græninginn Alexander Van der Bellen (72 ára) og Norbert Hofer (45 ára), frambjóðandi Frelsisflokksins, í annað sinn um forsetaembættið. Í kosningum á maí 2016 vann Van der Bellen með tæplega 31.000 atkvæða meirihluta. Frelsisflokkurinn kærði framkvæmd kosninganna og voru þær ógiltar vegna brota á reglum við talningu atkvæða.

Hofer er eindreginn andstæðingur útlendingastefnu ESB. Talið er að sigri hann verði það til að styrkja stöðu flokka með svipaða stefnu í Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi. Frelsisflokkurinn hefur mánuðum saman notið mestra vinsælda stjórnmálaflokka í Austurríki. Þingkosningar verða þar á árinu 2017.

Van der Bellen er hagfræðiprófessor og hallast að Bandaríkjum Evrópu. Hofer er verkfræðingur sem vill „ESB þjóðríkja“, það er ESB reist á minni „miðstýringu“ en nú ríkir. Hann segist einnig ætla að beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu meðal Austurríkismanna verði Tyrkland aðili að ESB eða ef Brusselmenn sækist eftir of miklum völdum frá aðildarríkjunum.

Hvert sem litið er innan ESB er aðild að sambandinu sundrandi afl á vettvangi stjórnmálanna og kallar á ákafar deilur á heimavelli um hvernig aðild skuli háttað og hve mikið tjón hún hefur í för með sér fyrir viðkomandi ríki.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er enn óljóst hér á landi hvort spjallfundir stjórnmálamanna eftir kosningarnar 29. október hafi leitt til þess að þeir hafi talað ESB út af borðum sínum. Sé svo ekki, sannar það aðeins hve óraunsæjar umræðurnar eru. Að gera kröfu um framhald aðildarviðræðna við ESB að úrslitamáli í stjórnarmyndunarviðræðum á Ísland í desember 2016 sýnir aðeins pólitíska firringu þeirra sem það gera.