21.12.2016 15:00

Miðvikudagur 21. 12. 16

Í dag ræddi ég við sr. Vigfús Þór Árnason í þætti mínum á ÍNN í tilefni af útkomu ævisögu hans, Vilji er allt sem þarf, Ragnar Ingi Aðalsteinsson skráði. Frumsýning kl. 20.00 í kvöld. Af samtalinu og bókinni má ráða að án náins samstarfs við skólastjóra hefði ekki tekist svo farsællega hjá sr. Vigfúsi Þór að skjóta fótum um sókn og söfnuð í Grafarvogi.

Að prestar fái inni í skólum á sama hátt nú og þegar sr. Vigfús Þór efndi þar til kirkjulegra athafna er liðin tíð. Borgaryfirvöld hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé brot á mannréttindum að nýta skólabyggingar í þágu kirkjunnar og raunar er þeim í nöp við að farið sé með skólabörn í kirkjur fyrir jólin.

Þetta er mikil öfugþróun. Hún er reist á álíka heimskulegri pólitískri rétthugsun og andstaða Hjálmars Sveinssonar, formanns skipulagsráðs borgarinnar, við gerð umferðarmannvirkja. Hann telur að ekki þurfi fé af samgönguáætlun til umferðarmannvirkja, fé til borgarinnar renni í almenningssamgöngur enda segi sérfræðingar tilgangslaust að reisa frekari umferðarmannvirki.

Í Morgunblaðinu í dag kemur í ljós að Hjálmar fór ekki rétt með afstöðu sérfræðinga. Í blaðinu segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri:

„Mikið hefur verið rætt og skrifað um gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, við Elliðaárdalinn. Vegagerðin telur vera brýnt að byggja þar mislæg gatnamót. Það er hins vegar gott dæmi um framkvæmd sem sveitarfélag [Reykjavíkurborg] vill ekki ráðast í þrátt fyrir að fjárveiting hafi verið komin fyrir framkvæmdinni á sínum tíma.“

Að sögn Hreins dylst engum að vissir vegakaflar í borginni anni illa umferð á álagstímum, en hann bendir jafnframt á að aukin áhersla á almenningssamgöngur muni ekki endilega draga úr umferð einkabíla frá því sem nú er.

Viðleitni borgaryfirvalda undir forystu samfylkingarfólks til að hafa vit fyrir borgarbúum hvort heldur á andlega eða veraldlega sviðinu hefur fyrir löngu farið út fyrir öll mörk.

Við þetta bætist síðan þvermóðskan þegar kemur að Reykjavíkurflugvelli og lokun hans fyrir sjúkraflugi á óveðursdögum eins og í gær. Í því efni hefur málsvari ríkishlutafélagsins ISAVIA gengið í lið með borgarstjóra og hans mönnum sem segjast hafa meira vit á hvort óhætt sé að fljúga til vallarins en flugmennirnir sem gera það af ríkri ábyrgðarkennd. Má rekja afstöðu ISAVIA til þess að fyrrverandi borgarstjóri R-listans er samgöngustjóri ríkisins?