23.12.2016 14:30

Föstudagur 23. 12. 16

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fyrsti þingmaður norðvesturkjördæmis, formaður fjárlaganefndar, stóð vel að verki við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins á alþingi. Bjarni Benediktsson lagði frumvarpið fram þegar alþingi kom saman til fyrsta fundar eftir kosningar þriðjudaginn 6. desember 2016. Frumvarpið varð að lögum að kvöldi 22. desember í betri sátt en almennt ríkir við afgreiðslu fjárlagafrumvarps.

Við afgreiðslu málsins á þessum skamma tíma tókst Haraldi í samvinnu við Bjarna og meðnefndarmenn sína í fjárlaganefnd að finna lausnir á málum sem vöktu hörðust viðbrögð við frumvarpinu þegar það sá dagsins ljós. Þar bar mest á kröfum fyrir hönd Landspítalans. Spurning vaknar hvort allir mælikvarðar um hagkvæmni raskist ekki með einni svo risavaxinni ríkisstofnun. 

Björn Levi Gunnarsson tölvunarfræðingur er þingmaður Pírata úr Reykjavík/suður. Hann situr í fjárlaganefnd og segir í áliti sínu um fjárlagafrumvarpið að einlægur vilji nefndarinnar hafi verið að búa svo um hnúta að „heilbrigðisstofnanir hefðu a.m.k. tækifæri til þess byrja á núlli og möguleika á að koma í veg fyrir hallarekstur“. Björn Levi telur „eftir að hafa rýnt í tölurnar og gögnin sem nefndin fékk aðgang að, að því markmiði hafi verið náð. Stofnanir heilbrigðiskerfisins ættu að geta sinnt nauðsynlegri þjónustu við landsmenn án þess að enda í mínus.“

Björn Levi segist hafa sett sér „það lágmark að fjárlög 2017 skiluðu heilbrigðiskerfinu réttu megin við núllið í rekstrarafkomu”. Að lokinni athugun á málinu hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að „sú upphæð þyrfti að vera 7,5 milljarðar kr.“ Þá upphæð sé „að finna í fjárlagafrumvarpinu og þeim breytingum sem fjárlaganefnd leggur til við frumvarpið. Þeirri upphæð er skipt á milli nokkurra málefnasviða og málefnaflokka og í sameiningu þurfa margir að ná þeim markmiðum sem sett eru. Mjög lítið þarf út af að bregða til þess að heildarmarkmiðið náist ekki. Píratar verða vægðarlausir í eftirliti með því að þessum fjármunum verði varið á sem skilvirkastan hátt. Ábyrgð framkvæmdarvaldsins í þessu máli er gríðarlega mikil að mati Pírata“.

Hér skal ekki dregið í efa að Björn Levi lýsi niðurstöðu í þessu langvinna máli á óhlutdrægan hátt. Ber að fagna því að fundist hefur farsæl lausn, deilurnar um fjárveitingar til heilbrigðismála eru fyrir löngu komnar langt út fyrir öll mörk og eru dapurlegri en réttmætt er – þær einar vinna gegn markmiðinu um að efla traust á heilbrigðiskerfinu.