16.12.2016 15:00

Föstudagur 16. 12. 16

ÍNN-viðtal mitt við Sigríði Hagalín Björnsdóttur um skáldsögu hennar Eyland er komið hér á netið.

Í vikunni var forvitnilegt Kastljós í sjónvarpinu þar sem fulltrúar allra þingflokka sátu fyrir svörum um stjórnmálaástandið og líkur á myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þátturinn er ekki eftirminnilegur vegna þess hvað með sögðu, þeir höfðu í raun ekkert nýtt fram að færa, heldur vegna heiftarinnar sem birtist í samskiptum Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanns Pírata, og Katrínar Jakobsdóttur, formanns vinstri-grænna.

Birgitta kennir Katrínu um að hafa eyðilagt tilraunir sínar til að mynda stjórn, tilraunir sem voru dæmdar til að mistakast frá upphafi. Enginn flokksleiðtogi vill setjast í stjórn sem Birgitta myndar þótt hún ætli að eigin sögn að vera utan hennar. Þetta var frá upphafi vonlaus tilraun hjá Birgittu og þess vegna kom það enn verr við Katrínu að henni væri kennt um að Birgittu mistókst. Birgitta leitar að sökudólgi til að draga athygli frá allri vitleysunni sem hún og Smári McCarthy Pírati sögðu um að stjórnarmyndunin væri á beinu brautinni – 90% líkur á myndun stjórnar sagði Birgitta föstudaginn 9. desember en neyddist til að viðurkenna sig sigraða mánudaginn 12. desember. Hafi verið markmið forseta Íslands að draga athygli að markleysi orða Birgittu náðist það.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir tók viðtal við Katrínu sem birtist í Fréttatímanum fimmtudaginn 15. desember.

Katrín hallmælir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn enda telur hún „ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé að fara að gefa eftir í skattlagningu á efnaðasta fólkið“. Þarna vísar hún til þess úrslitaatriðis VG að auðlegðarskattur verði lagður á að nýju.

Boðskapur Katrínar hefur frá 30. október verið að hún þurfi sífellt meiri tíma og meira svigrúm til að velta fyrir sér hvað gera skuli. Hún segir:

„En ég held að við ættum ekki að missa kúlið þótt einhverjir gamlir skarfar séu að halda því fram að þetta hafi vanalega tekið einn sólarhring þegar þeir voru og hétu. Það eru mörg lönd í Evrópu sem hafa gengið í gegnum langar og erfiðar stjórnarkreppur en að lokum hafa hlutirnir blessast. Við erum ekki komin hálfa leiðina þangað þótt við tökum okkur aðeins lengri tíma í að hugsa næstu leiki.“

Ekki er ljóst hver er skotmark Katrínar þegar hún talar um „gamla skarfa“. Líklegt er að orðalagið væri talið ósæmilegt ef hún ætti við konur en í því felst ekki aðeins óvirðing við skoðunina sem hún andmælir heldur einnig þá sem hafa hreyft henni.

Í Belgíu tók stjórnarmyndun 541 dag. Setji Katrín sé það viðmið verður engin stjórn mynduð fyrr en á árinu 2018.