24.11.2016 16:15

Fimmtudagur 24. 11. 16

Flugum til Brussel í morgun með Icelandair. Allt var á áætlun, gott ferðaveður og einnig er veðrið í Brussel gott. Miðborgin var lokuð vegna mótmæla starfsmanna á sviði heislugæslu og menningarmála. Ekki var unnt að aka að hótelinu og fjöldi fólks í sérstökum klæðnaði mótmælenda setti svip á borgarlífið en kröfugöngum var lokið þegar við vorum á ferðinni um hádegisbilið.

Það er verið að setja upp risastóra jötu á Grand Place og þar er nú fagurlega skreytt jólatré. Þá má sjá á öllu umstaningu í kringum kauphöllina að árlegi jólamarkaðurinn þar verður opnaður um helgina.

Belgía er sérkennilegt ríki, skipt í fjóra hluta: Brussel, Vallóníu, Flæmingjaland og land þýskumælandi. Þing Vallóna komst í fréttir á dögunum þegar það andmælit fríverslunarsamningi ESB og Kanada. Fyrir þessu voru ekki síst ástæður sem rekja má til stjórnmálaástandsins í Belgíu en sósíalistar sem ráða miklu í Vallóníu eiga ekki menn í sambandsstjórninni. Þeim þótti því ekkert að því að skapa ríksstjórn eigin lands vandræði og þrýsting frá ráðamönnum innan ESB.

Belgar eiga heimsmet í lengd stjórnarkreppu, 541 dag, árið 2011. Það met jók ekki trú manna á stjórnarháttum í landinu.

Nú hefur stjórnarkreppa hjá okkur staðið síðan 30. október. Þegar svo er var skrýtið að heyra stjórnmálafræðing ríkisútvarpsins, Eirík Bergmann Einarsson,  segja í gær að nú færi að glitta í stjórnarkreppu. Hvaða ástand telur stjórnmálafræðingurinn að hafi ríkt í landstjórninni frá 30. október?