25.12.2016 15:30

Sunnudagur 25. 12. 16 - jóladagur

 

Norska skáldið Knut Ødegård lauk á árinu þýðingu á fjögurra binda verki Edda-dikt. Cappelen Damm er útgefandi þessara glæsilegu bóka þar sem íslenski textinn úr Konungsbók Eddukvæða birtist á vinstri síðu en þýðing Knuts Ødegårds á hægri síðu. Í formála þriðja bindis segir norski menningarmaðurinn Lars Roar Langslet sem lést 18. janúar 2016:

„Ingen kunn være bedre rustet til å gjendikte Edda-kvadene for dagens norske lesere enn Knut Ødegård, som selv er fullblods poet, med et rikt forfatterskap bak seg. Det borger for at de poetiske kvalitetene í denne urgamle diktingen ikke blir avbleket í filologosk korrekthet. Men formidleren Ødegård er seg klart bevisst at han burde velge et språkform som ikke krever at leseren stadig må slå opp í ordbøker for å fatte ordmeningene – derfor har han holdt seg til et forholdsvis moderne nynorsk. I tillegg er hann grunnlærd í de norrøne og lojal mot sin lærdom, med innsikt i de nyeste forskningsarbeider på feltet, og med gode faglige hjelpere.

En bedre formidler av denne storslagne diktingen kunne vi ikke få. Det er et kjempeverk han nå er i ferd med å fullføre – en ny bragd føyet på hans lange merittliste.“

Lars Roar Langslet minnir á það í formála sínum í þriðja bindinu á þessu mikla verki að Eddukvæðin séu stöðug uppspretta fyrir aðra listamenn allt fram til dagsins í dag. Eitt magnaðasta listaverkið reist á hetjukvæðunum er Niflungahringur Richards Wagners – óperuverk í fjórum hlutum sem tekur rúmlega 15 klukkustundir að flytja. Þegar ég horfi á það undrast ég að náttúrvinir og umhverfisvernarsinnar skuli ekki hafa nýtt sér boðskap þess málstað sínum til framdráttar.

Með þetta í huga gladdi mig þegar ég las í eftirmála Knuts Ødegårds í fjórða bindi þýðingarinnar miklu að máttugur kveðskapur hetjukvæðanna í Konungsbók ætti að minna okkur á að ganga varlega um auðlindir jarðar, hann snýst um bölvunina sem fylgir illa fengnu gulli. Lokaorð Knuts Ødegårds í eftirmála hans eru:

„Det er gledeleg at det nett í våre dagar er ei veksande interesse for den norrøne diktinga her til lands, det er jamvel tale om ein „norrøn vår“. Denne diktinga er ikkje berre vår norrøne arv, men i høgste grad forteljingar for vår tid ­– og kanskje meir aktuelle og utfordrande enn nokon gong.·

Um leið og þýðingu Knuts Ødegårds er fagnað skal vakið máls á mikilvægi þess að leitast sé við að skrá og greina hve mikil áhrif Snorri Sturluson og hans menn í Reykholti hafa haft á heimsmenninguna með því sem þeir skráðu fyrir 800 árum.