6.12.2016

Kristján Eldjárn - aldarminning

Morgunblaðið 6. desember 2016

Þess er minnst í dag að 100 ár eru liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta Íslands og þjóðminjavarðar. Kristjáns er jafnan getið sem farsæls þjóðhöfðingja sem sameinaði þjóð sína með virðulegri hófsemi sinni, frábærum tökum á íslenskri tungu og einstæðri þekkingu á íslenskri þjóðmenningu.

Kynslóð kennir sig við árið 1968 þegar Kristján var kjörinn forseti. Þetta var þegar stúdentar í París héldu út á götur stórborgarinnar og kröfðust umbóta, fyrst innan háskólans og síðan á þjóðfélaginu öllu. Charles de Gaulle Frakklandsforseti og stofnandi fimmta franska lýðveldisins var nálægt því að missa völdin í maí 1968 og sagði af sér árið 1969 þegar sjónarmið hans urðu undir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lyndon B. Johnson, arftaki Johns F. Kennedys á forsetastóli Bandaríkjanna, bauð sig ekki fram til endurkjörs haustið 1968 vegna öflugrar og vaxandi andstöðu við aðild Bandaríkjamanna að stríðinu í Víetnam.

Vandræði þessara tveggja voldugu forseta voru til marks um áhrif ungs fólks sem reis gegn ríkjandi viðhorfum og kerfi. Krafist var breytinga og aukins svigrúms til orðs og æðis. Þetta var 68-kynslóðin, hipparnir.

Að Kristján Eldjárn (51 árs) skyldi gjörsigra Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi prófessor, borgarstjóra Sjálfstæðismanna, fjármálaráðherra og sendiherra, í forsetakosningum sumarið 1968 var talið til marks um andóf gegn ráðandi öflum, endurómur byltingarkenndra breytinga sem settu svip sinn á þróun mála í lýðfrjálsum löndum.

Mikil festa ríkti í stjórn landsins á sjöunda áratugnum, sömu flokkar, Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur, höfðu setið saman í ríkisstjórn frá 1959, Viðreisnarstjórninni. Flokkarnir fengu meirihluta í þriðju kosningunum í röð árið 1967.

Sjálfstæðismenn reyndust ósamstiga í forsetakosningunum 1968 eins og árið 1952 þegar Gunnar Thoroddsen studdi sigurvegarann þá, Ásgeir Ásgeirsson, tengdaföður sinn.

Bakgrunnur Kristjáns var allur annar en Gunnars. Kristján var þjóðkunnur mennta- og menningarmaður, þjóðminjavörður frá árinu 1947. Hann var fyrsti Íslendingurinn sem talaði sig inn í hjörtu þjóðarinnar í sjónvarpi þar sem hann kynnti muni úr Þjóðminjasafninu eftir að ríkissjónvarpið tók til starfa árið 1966. Enn er minnisstætt hve vel honum tókst í krafti frábærs valds síns á íslenskri tungu og mikillar þekkingar sinnar á viðfangsefninu að gæða munina sem hann lýsti lífi í svart-hvítri myndinni.

Krafa um breytingar og víðtækur stuðningur áhrifamanna úr öllum flokkum tryggði Kristjáni Eldjárn sigur árið 1968 og hann sat í forsetaembættinu án mótframboðs í þrjú kjörtímabil. Hann ákvað að bjóða sig ekki fram árið 1980  og ætlaði að helga sig fræðistörfum að nýju.

Í tilefni af 100 ára afmæli Þjóðminjasafnsins árið 1963 ritaði Kristján bókina Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Í hugleiðingum í upphafi bókarinnar fjallar hann um framtíð safnsins en segir að draumar um hana kunni að verða að engu vegna nýrra tíma með ný viðhorf „sem engan órar fyrir nú“. Slíkt sé eðlileg framvinda en kjarni safnsins verði „þó hinn sami, eðli þess hið sama“. Hvað sem leið atburðum ársins 1968 var Kristján hvorki maður kollsteypu né byltinga heldur breytinga í anda eðlilegrar framvindu.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins árið 1968, bauð Gunnari Thoroddsen alla þá aðstoð sem hann vildi í kosningabaráttunni gegn Kristjáni en framundir lokaátökin töldu Gunnar og hans menn best að forystumenn Sjálfstæðisflokksins héldu sér sem mest til hlés, annað kynni að minnka fylgi við framboðið.

Leiðir Bjarna og Kristjáns höfðu oft legið saman á löngum embættisferli beggja þótt ekki væru þeir samstiga í stjórnmálum, einkum þó um utanríkismál. Eftir að Kristján varð forseti áttu þeir gott og vinsamlegt samstarf á meðan báðir lifðu.

Vinsemd og virðing sem Kristján sýndi minningu foreldra minna og systursonar eftir eldsvoðann á Þingvöllum 10. júlí 1970 þegar ráðherrabústaðurinn, Konungshúsið, brann til kaldra kola var mikil og einlæg. Hann var áhugamaður um að gerður yrði minningarreitur á staðnum þar sem bústaðurinn stóð og fórum við saman til Þingvalla og völdum þar steininn sem síðan var fluttur og reistur á lóðinni þar sem hann stendur enn. Kristján samdi áletrunina á steininn og íhugaði vandlega hvert orð, sérstaklega þessi: Íslenska þjóðin reisti þeim þennan varða.

Þegar Kristján Eldjárn varð forseti var skrifstofa forsetaembættisins í Alþingishúsinu en fluttist árið 1973 í Stjórnarráðshúsið og var þar með forsætisráðuneytinu til ársins 1996 þegar forsetaembættið fékk aðsetur að Sóleyjargötu 1, í húsi sem Kristján átti og þar sem hann bjó með Halldóru, konu sinni, frá miðju ári 1980 þar til hann andaðist árið 1982. Heimili  Halldóru og Kristjáns var lengst af í Þjóðminjasafnshúsinu en árið 1968 fluttist fjölskyldan til Bessastaða.. Halldóra bjó við Sóleyjargötuna til ársins 1985. Hún andaðist 21. desember 2008.

Kröfur í íslensku samfélagi hafa breyst mikið frá tíma Kristjáns Eldjárns og breytingin verður ljóslifandi þegar hugað er að aðstæðunum sem hann og fjölskylda hans sættu sig við í Bessastaðastofu. Á Bessastöðum var stundaður búskapur fram til ársins 1968 og húsin á staðnum voru nýtt eins og á herragarði. Forsetafjölskyldurnar bjuggu í Bessastaðastofu, svefnherbergi voru á efri hæð en stofur niðri. Móttökum fjölgaði og í tíð Kristjáns bjó fjölskyldan að mestu í lítilli íbúð undir risi, var aðstöðunni lýst á þann veg í Morgunblaðinu að forseti byggi „í embættissölum eða risinu á samkomuhúsi“. Þegar loks var ráðist í gagngerar endurbætur á Bessastaðastofu árið 1989 varð í raun að endurbyggja húsið og tjalda innan dyra vegna þess hve þakið lak.

Frá hausti 1974 fram á haust 1979 starfaði ég sem skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins í ráðherratíð Geirs Hallgrímssonar og Ólafs Jóhannessonar.

Á þessum árum kynntist ég einlægri alúð Kristjáns Eldjárns við embættisstörf sín. Stundum kallaði hann mig til viðtals í skrifstofu sinni í norðvesturenda Stjórnarráðshússins, einkum þegar málefni tengd alþjóðasamskiptum voru til úrvinnslu. Hann var mikill tungumálamaður og fylgdist vel með alþjóðamálum. Margt annað bar að sjálfsögðu á góma og var honum annt um að fræða og fræðast.

Sendi hann mér texta vakti undrun mína hve Kristján var nýtinn á pappír. Gjarnan voru þeir handskrifaðir, skýrri hendi, á sundurskorin umslög. Hann skrifaði út í hvert horn. Þessi nýtni var jafnframt til marks um allt viðhorf hans til meðferðar á opinberum fjármunum. Hann sýndi skattgreiðendum nærgætni með hófsemi sinni í allri kröfugerð.

Á forsetaferli Kristjáns Eldjárns sátu 35 menn í ríkisstjórn og þar af voru 6 forsætisráðherrar, frá 1971 sat aðeins ein ríkisstjórn allt kjörtímabilið, ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar, 1974 til 1978. Við stjórnarmyndanir reyndi mikið á Kristján Eldjárn, ekki síst sumarið 1978, haustið 1979 og um áramótin 1979/80. Hann fylgdi þeirri meginreglu að gera hvorki upp á milli flokka né manna, auk þess sem honum var kappsmál að myndaðar væru ríkisstjórnir er nytu stuðnings meirihluta á alþingi. Hann var sannur þingræðissinni.

Þegar Kristján Eldjárn kvaddi alþingismenn vorið 1980, sagði hann menn ræða hversu til hefði tekist um aðdraganda og framvindu þeirra tiltölulega mörgu stjórnarmyndunarviðræðna, sem orðið hefðu í hans tíð og sagði síðan: „Vafasöm háttvísi væri það af minni hálfu að fara mörgum orðum um slíkt. Vel fer á að forseti sé opinskátt þakklátur fyrir viðurkenningarorð, ef eitthvað þykir hafa vel tekist, en hins vegar hafi hann sem fæst orð um ef á kreik kemst einhver slæðingur sem til gagnrýni mætti meta. … Eg er forsjóninni þakklátur fyrir að geta skilist við embætti forseta Íslands í friði við samvisku míns sjálfs.“

Þegar Kristján Eldjárn ákvað að draga sig í hlé hvöttu hann margir, þeirra á meðal Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, til að halda áfram. Kristjáni varð ekki haggað. Hann kvaddi embætti sitt með reisn.

Kristján Eldjárn kenndi sér hjartameins árið 1982, varð hann á þeim tíma að leita sér lækninga í Bandaríkjunum og lést þar 65 ára að aldri þegar hann gekkst undir aðgerð 13. september 1982.

Í minningargrein sagði Andrés Björnsson útvarpsstjóri, vinur Kristjáns: „Alhliða gáfur, íhygli, yfirgripsmikil þekking á fjölmörgum sviðum, meðfædd kurteisi og alþýðleg framkoma og umgengniskunnátta við háa sem lága, tandurhreinir íslenzkir eðliskostir, vörðuðu veg hans og öfluðu honum trúnaðar og fylgis almennings í þessu landi alla hans embættistíð.“

Á þennan veg er Kristjáns Eldjárns minnst enn í dag.