22.12.2016 13:15

Fimmtudagur 22. 12. 16

Morgunblaðið birtir enn á ný í dag furðuleg ummæli samfylkingarmannsins Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, um umferðarmál.

Hjálmar Sveinsson er í einkastríði, með stuðningi meirihluta borgarstjórnar, við einkabílinn. Hjálmar telur tilgangslaust að bæta og auka umferðarmannvirki í Reykjavík af því að þau fyllist samstundis af bílum. Þá telur hann fjölgun ferðamanna í Reykjavik ekki leiða til þess að „réttlætanlegt“ sé „að fara í milljarða framkvæmdir vegna aukins umferðarþunga vegna ferðamanna“ í höfuðborginni. Hann ítrekar „að það sé sýn borgaryfirvalda að til framtíðar sé betra að auka vægi almenningssamgangna í stað þess að fara í dýrar framkvæmdir á gatnakerfinu“.

Hjálmar Sveinsson segir: ,,Það væri einsdæmi í heiminum ef við myndum byggja upp öflugt vegakerfi til að mæta þörfum ferðamanna á bílaleigubílum í stað þess að beina þeim í almenningssamgöngur. [...] Með því að bæta sífellt við nýjum akreinum og mislægum gatnamótum, þá fyllast þessar nýju akreinar um leið.“

Þessar yfirlýsingar eru af þeim toga að erfitt er að trúa að þarna tali maður sem bauð sig fram til að gæta hags borgarbúa og skapa þeim sem bestar aðstæður með vísan til vilja þeirra og hagsmuna. Vissu kjósendur þegar þeir greiddu Samfylkingunni atkvæði í borgarstjórnarkosningum árið 2014 að þeir væru að velja mann til að stjórna borginni sem ætlaði að nota vald sitt til að kenna þeim að hafna einkabílnum og sætta sig við bann við nýjum umferðarmannvirkjum? Raunar hefur ekki aðeins verið staðið gegn nýjum mannvirkjum í þágu einkabílsins heldur hafa þau sem fyrir eru drabbast niður vegna viðhaldsleysis. Holunum í malbikinu er líklega ætlað að letja fólk til að aka á eigin bíl um götur borgarinnar.

Óvild Hjálmars Sveinssonar í garð bílaleigubíla vekur athygli. Hann virðist álíta að hvergi í heiminum taki menn tillit til slíkra bifreiða við gerð umferðarmannvirkja. Þær séu afgangsstærðin sem verði til þess að menn bíði í sífellt lengri biðröðum vegna skorts á umferðarmannvirkjum.

Vegna málflutnings Hjálmars sagði Ómar Ragnarsson á Facebook:

„Fróðlegast er að heyra þau rök að vegna þess að hvort eð er verði ekki hægt að minnka umferðartafir í Reykjavík eigi ekkert að gera í þeim málum. Minnir á kaupmanninn, sem var spurður af hverju hann hefði ekki ákveðna vöru á boðstólum og hann svaraði: „Það þýðir ekki neitt að panta hana, - hún selst hvort eð er alltaf upp.““