17.12.2016 12:15

Laugardagur 17. 12. 16

Hér í dagbókinni sagði fimmtudaginn 15. desember „árið 2015 gerðist sá einstæði atburður að alþingismenn gripu fram fyrir hendur útlendingastofnunar, hnekktu lögmætri afgreiðslu hennar og samykktu með lögum ríkisborgararétt fyrir albanska fjölskyldu sem stofnunin hafði neitað um leyfi til að dveljast í landinu með vísan til laga og reglna um hælisleitendur”.

Í Fréttatímanum, furðublaði undir ritstjórn Gunnars Smára Egilssonar, þar sem safnast hafa fjölmiðlamenn sem jafnan lenda í útistöðum við einhverja eða eltast við sama fólkið ár og síð, vitnar, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir í ofangreind orð og gerir það á þennan hátt: og hnekktu „lögmætri afgreiðslu stofnunarinnar með því að veita Dega-fjölskyldunni frá Albaníu ríkisborgararétt í desember 2015“.

Orðin innan tilvitnunarmerkja eiga lesendur Þóru Kristínar væntanlega að skilja á þann veg að hún vitni beint í það sem ég skrifaði. Það gerir hún ekki heldur gerir mér upp orð til að styrkja lesanda sinn í þeirri trú að mér sé sama þótt útlendingastofnun hafi vísað dauðveikum dreng úr landi. Engin sönnun liggur þó fyrir um að ekki hefði verið unnt að lækna drenginn í Albaníu. Fyrr í grein sinni hafði Þóra Kristín í sama tilgangi vikið að sjálfsmorði Makedóníumanns, hælisleitanda, hér og snúið út úr orðum mínum eins og þau sneru sérstaklega að honum.

Þóra Kristín telur siðferði og góðmennsku sína bera af illmennsku minni og hikar ekki við að grípa til falsana til að árétta það. Oftar en einu sinni notar hún svo lýsingarorðið „gamli“ til að lýsa mér, ekki af því að hún vilji sýna sér eldri manni virðingu heldur til að gera lítið úr mér og skoðunum mínum.

Skítkast sem þetta er dapurlegur vitnisburður um málflutning þeirra sem taka að sér að verja illt ástand í útlendingamálum og hafna að tekið sé á hælisumsóknum Albana og Makedóníumanna á sama hátt hér og annars staðar. Með samvinnu lögreglu og lögfræðinga útlendingastofnunar í flugstöð Leifs Eiríkssonar mætti stytta dvalartíma fólksins hér og jafnframt spara íslenskum skattgreiðendum stórútgjöld.

Sé texti Þóru Kristínar lesinn á vefsíðu Fréttatímans segir fyrir neðan grein hennar þar: „TAKTU ÞÁTT Í UMRÆÐUNUM Verum uppbyggileg og berum virðingu fyrir hvort öðru.“ Þetta á greinilega við um aðra en starfsmenn Fréttatímans. Hvers vegna í ósköpunum er þessu óvandaða blaði dreift ókeypis á heimili fólks? Hverjum dettur í hug að bera kostnað af því?