14.12.2016 10:30

Miðvikudagur 14. 12. 16

Jólaundirbúningur felur meðal annars í sér að fara í pósthús. Í morgun ók ég  félaga mínum sem þurfti að reka erindi í slíku húsi. Við ákváðum að vera snemma á ferðinni og töldum víst að húsið yrði opnað fyrir klukkan 09.00 í jólaösinni. Svo reyndist þó ekki vera en félagi minn náði í afgreiðslunúmer 6 enda beið hann við dyrnar þegar pósthúsið var opnað.

Erindið var tvíþætt. Í fyrsta lagi að ná í sendingu sem tilkynnt hafði verið með miða frá póstinum dags. 12.12 um að sendingin yrði til afgreiðslu næsta dag, það er 13.12. Þetta reyndist ekki rétt því að afgreiðslukonan sló inn í tölvu og sagði sendinguna ókomna í pósthúsið að morgni 14.12. Í öðru lagi var erindið að vigta bók til að átta sig á hvað kostaði að senda hana til útlanda og kaupa frímerki til að setja á nokkrar slíkar sendingar. Afgreiðslustúlkan réð einfaldlega ekki við þetta verkefni og óx svo augum að finna frímerkin sem á þurfti að halda að félagi minn hvarf á braut frímerkjalaus.

Þetta er ótrúleg en sönn saga. Á meðan þetta gerðist sat ég í rúmar 20 mínútur í bíl fyrir utan pósthúsið og sá hvað eftir annað fólk fara úr bílum sínum að pósthúsdyrunum en snúa strax til baka. Því hraus einfaldlega hugur við að fara í biðröðina sem myndaðist strax og pósthúsið var opnað með aðeins þrjár manneskjur við afgreiðslu og þar af eina sem hafði greinilega ekki hlotið næga starfsþjálfun. Þegar félagi minn sem var númer 6 í röðinni hvarf á braut án þess að hafa í raun fengið nokkra afgreiðslu sá hann að talan 20 var komin yfir afgreiðsluborðið við hliðina á sér.

Frímerki eru á undanhaldi og virðist þurfa þrautþjálfað afgreiðslufólk til að selja þau í pósthúsum. Þar vilja starfsmenn að viðskiptavinir láti einfaldlega stimpla sendingar sínar í stað þess að kaupa frímerki. Líklega þýðir þetta að í stað þess að fara með bréf í póstkassa verður fólk að gera sér ferð í pósthús til að láta stimpla hvert bréf. Ekki dregur það úr örtröðinni í þessum húsum.

Nú þarf að taka ákvörðun um hvort gerð verður önnur tilraun til að nálgast sendinguna sem átti að vera í pósthúsinu 13.12 en var ekki komin 14.12 eða biðja um að hún verði borin heim fyrir 700 kr. aukagreiðslu.

Hefðbundnar jólasögur eru að jafnaði sorglegar en enda þó vel. Vonandi fá þeir sem eiga erindi í pósthús vegna jólanna betri úrlausn sinna mála en við félagarnir. Biðin langa verði ekki til einskis.