28.11.2016 18:15

Mánudagur 28. 11. 16

Sálumessa um vin minn Gunnar Eyjólfsson var frá Kristskirkju í dag kl. 15.00 og rúmaði kirkjan ekki alla sem vildu kveðja hann. Prestur var sr. Hjalti Þorkelsson, oragnisti Steingrímur Þórhallsson, einsöngvarar voru Alina Bubik og Hallveig Rúnarsdóttir, einleik á fiðlu lék Zbignew Dubik, Kammerkór Neskirkju söng en Frímann og Hálfdán – Útfararþjónusta annaðist útförina. Ingvar E. Sigurðsson leikari las úr Pétri Gaut og Sveinn Einarsson flutti minningarorð.

Athöfnin fór vel og virðulega fram. Fallegur, einfaldur hátíðleiki hennar féll vel að minningu Gunnars. Andi hans sveif yfir öllu sem fram fór. Hann er jarðaður í Garðakirkjugarði að eigin ósk, þaðan sést bæði til Keflavíkur og Karmelklaustursins í Hafnarfirði.

Ég skrifaði minningargrein í Morgunblaðið og má lesa hana hér. Þar rifja ég upp brot af því marga og eftirminnilega sem við höfum gert saman undanfarna þrjá áratugi. Frá mörgu er sagt hér á þessum dagbókarsíðum. Þær frásagnir eru þó ekki nema reykurinn af réttunum.