28.11.2016

Gunnar Eyjólfsson minningarorð

Morgunblaðið 28. 11. 16

Kynni okkar Gunnars Eyjólfssonar hófust fyrir tæpum 30 árum, við þekktum báðir qi gong, kínverskar lífsorkukæfingar. Í nóvember 1992 skipaði Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra okkur í nefnd um skipulag og rekstrarform stofnunar er veitti æðri menntun í listum. Vorið 1993 lagði nefndin grunn að Listaháskóla Íslands. Á þessum árum tókst vinátta okkar. Hann bauð mér í Karmelklaustrið í Hafnarfirði, í messur og að hitta nunnurnar, vinkonur sínar sem hann mat og virti af öllu hjarta. 

Við hófum síðan að stunda qi gong-æfingar saman og Gunnar þróaði kerfið sem kynnt var síðan í bókinni Gunnarsæfingarnar árið 2013. Hann vildi að Aflinn, félag qi gong-iðkenda, yrði stofnað árið 2002 og tók loforð af mér að gegna þar formennsku á meðan hann lifði. „Við höfum mikið á samviskunni, Björn,“ sagði hann oft og vísaði til þess hve margir hefðu tekið að stunda qi gong. Ég svaraði jafnan að væri ekkert alvarlegra en þetta á samvisku okkar, þyrftum við engu að kvíða. Síðast skiptumst við á þessum orðum 7. nóvember 2015 þegar við ókum saman í Skálholt til að minnast aftöku Jóns Arasonar og sona hans.

Skálholt var mesti helgistaður landsins í augum Gunnars. Í Skálholti hefði píslarvotturinn Jón Arason úthellt blóði sínu.

Það var opinberun að kynnast Gunnari vegna qi gong og tengslanna við Karmel-nunnur. Hann gætti þess jafnan að gæta trúarlegs hlutleysis við qi gong-æfingarnar en undir niðri bjó jafnan trúarhitinn. Hann sagði:

„Í hugleiðslu gerum við okkur aðgengileg, opnum okkur fyrir hinum mikla krafti sem ber ýmis nöfn: lífskraftur, orka, Guð. Hugleiðsla er ræktun – að gera sig aðgengilegan án þess að biðja um eitthvað. Við biðjum um mikið en við hlustum ekki nóg. Þyljum bænir í sífellu í stað þess að njóta þagnarinnar með opinn huga.“

Hann hreifst af John Main sem sagði skilið við bresku utanríkisþjónustuna og gerðist prestur í Benediktína-reglunni og stofnaði hugleiðsluhópa í stórborgum með möntruna maraþana að leiðarljósi, eina fyrstu bæn kristinna manna.

Gunnar sagði stundum: „Ég dái mest hljóðfæraleikara og trésmiði. Jú, sjáið til. Hvers virði væri 9. sinfónía Beethovens ef hún væri ekki annað en nótur á stórum handritaörkum meistarans? Við þurfum að heyra hana flutta til að kynnast henni, hrífast af hverjum tóni, hverri stroku fiðluleikarans, hverjum hljómi blásarans og hverju bjölluslagi. Hvers virði er uppdráttur arkitektsins, ef enginn er til að smíða húsið?“

Gunnar blés lífi í margan textann með flutningi sínum. Mér eru þó minnisstæðari stundirnar með honum í móttökustofu Karmel-nunna eða setustofunni í Skálholtsskóla þar sem hann fór á slíkt flug með orðkynngi sinni og frásagnarlist að við hin sátum agndofa.

Qi gong-iðkendur njóta með þökk ávaxta af starfi Gunnars. Við eigum minningar um ógleymanlegan mann og vin. 

Gunnar var sannfærður um að Jesús tæki sér opnum örmum, hafði dreymt það.

Við Rut færum Katrínu, Karitas, Þorgerði Katrínu og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. 


Blessuð sé minning Gunnars Eyjólfssonar.