12.12.2016 15:50

Mánudagur 12. 12. 16

Enn einu sinni liggur fyrir hve ranga sýn Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hefur á eigin stöðu. Fyrir helgi sagði hún 90% líkur á að sér tækist að mynda fimm flokka ríkisstjórn. Birgitta sagði einnig: „Ég myndi aldrei nenna að sitja á svona fundum ef ég sæi engan tilgang með þeim.“

Ljóst varð í dag, 12. desember, að enginn tilgangur var með fundunum sem Birgitta hefur stýrt frá föstudeginum 2. desember. Fulltrúar fimm flokka hafa setið og talað saman í 10 daga án nokkurrar niðurstöðu. Birgitta sagði fyrir helgi að það mundi skýrast í síðasta lagi föstudaginn 16. desember hvort tilraun sín bæri árangur.

Eftir að Birgitta fór að tala um svo marga daga enn með forystuna í sínum höndum er greinilegt að einhver hefur hnippt í hana því að allt í einu breyttist tónninn, nú skyldi nýliðin helgi notuð til að kanna hvort viðræðurnar kæmust af óformlegu á formlegt stig!

Þessi munur á „óformlegum“ og „formlegum“ viðræðum virðist hafa verið hannaður til að vinna tíma – menn yrðu að fá ráðrúm til að ræðast við óformlega áður en þeir hæfu formlegar umræður. Er einkennilegt að fjölmiðlamenn láti stjórnmálamenn komast upp með slíkan leikaraskap og taki þátt í honum.  

Formleg hlið stjórnarmyndunar snýr að forseta Íslands. Hann felur einhverjum stjórnarmyndun (afhendir honum umboðið eins og nú er sagt) og sá sem þetta er falið ræðir við menn á formlegan hátt að tilmælum forseta.

Tal Birgittu við fulltrúa annarra flokka núna var álíka tilgangslaust og brölt hennar með fundum í Lækjarbrekku fyrir kosningar. Lækjarbrekkufundirnir opnuðu augu margra fyrir leikaraskapnum hjá Pírötum. Fundir Birgittu nú sýna að heitstrengingar hennar fyrir kosningar eru marklausar, ekki brotnaði á neinu stefnumáli Pírata enda var öllum kosningaloforðum þeirra ýtt til hliðar til þess eins að Birgitta væri sem lengst í sviðsljósinu í krafti ákvörðunar forseta Íslands.

Þegar Guðni Th. Jóhannesson fól Birgittu stjórnarmyndun lýsti hann bjartsýni sinni um framhaldið með sérstakri yfirlýsingu sem lauk á þessum orðum:

„Ég vænti þess að fá upplýsingar strax upp úr helgi [fyrir viku] um gang væntanlegra stjórnarmyndunarviðræðna. Þótt talsverður tími hafi nú liðið frá kosningum og ekki megi slá slöku við er engin þörf á óðagoti.“

Hafi Birgitta talið forseta trú um að árangur sinn réðist af tímanum sem hún fengi, blekkti hún forsetann eins og aðra.