30.11.2016 15:00

Miðvikudagur 30. 11. 16

Í dag ræddi ég við Sverri Jakobsson prófessor um bók hans Auðnaróðal sem snýst um valdabaráttu á Íslandi frá 1096 til 1281. Þessi tími er talinn einn mesti ófriðartími Íslandssögunnar og á bók Sverris fullt erindi til samtímans bæði til að auka áhuga og skilning á þessu merka tímabili í þjóðarsögunni og einnig til að spegla samtímann í því sem þá gerðist. Samtal okkar verður frumsýnt á ÍNN klukkan 20.00 í kvöld.

Við það er miðað að Íslendingar hafi gengið Noregskonungi á hönd 1262/64 með gamla sáttmála. Sverrir segir í raun erfitt að slá neinu ártali föstu í þessu sambandi. Eitt sé þó víst að Íslendingar tóku upp annars konar samband við Noregskonung en þeir væntu því að þeir vissu ekki við fyrstu tengslin að það mundi leiða til skattheimtu í nafni sameinaðs konungdæmis.

Þessi lýsing kemur vel heim og saman við ýmislegt sem sagt er varðandi hugsanlegan aðildarsamning Íslendinga við Evrópusambandið. Menn tala gjarnan um stöðuna innan sambandsins eins og var áður en Evrópusambandið tók við af Evrópubandalaginu með auknu miðstjórnarvaldi og skilyrðislausri kröfu um aðlögun að sáttmálum sambandsins.

Dæmi um úr sér genginn málflutning af þessu tagi mátti sjá í grein eftir Óla Anton Bieltvedt, alþjóðlegan kaupsýslumann og stjórnmálarýni, í Morgunblaðinu þriðjudaginn 29. nóvember. Þar segir meðal annars:

„Fullyrðingar hafa komið fram um það í fjölmiðlum hér, að skilmálar ESB séu óhagganlegir. Vitnað hefur verið í það, að sóknarprestur á Akureyri hafi skrifað ESB og spurst fyrir um málið. Hann á að hafa fengið þau svör, að ekki væri hægt að semja um aðildarskilmálana. Fyrir mér er þetta meira grín en alvara og alveg út í hött. Hverjum dettur eiginlega í hug að ESB upplýsi klerk á Akureyri, þó merkur kunni að vera, um möguleika og svigrúm í aðildarsamningum milli ríkisstjórna og forráðamanna ESB?“

Við mann sem skrifar svona þýðir ef til vill ekki að vekja máls á staðreyndum. Að sjálfsögðu var full alvara í svarinu til sóknarprestsins á Akureyri enda í samræmi við fastmótaða stefnu ESB. Þótt ESB-embættismenn séu oft sakaðir um hroka og fjarlægð frá almennum borgurum sæmir ekki að bera á þá lygar. Óli Anton lifir í þeirri trú að Íslendingar geti samið við ESB á sama grunni og Danir sömdu við EB fyrir rúmum 40 árum. Hann áttar sig ekki á pólitískri andstöðu við ESB-aðild Tyrkja.