8.12.2016 10:00

Fimmtudagur 08. 12. 16

Þegar alþingismenn samþykktu fyrir ári að breyta frumvarpi til laga um ríkisborgararétt einstaklinga til að hnekkja ákvörðun útlendingastofnunar um brottvísun fjölskyldu frá Afganistan var fullyrt að það hefði ekki fordæmisgildi. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag birtist þessi frétt:

„Um það bil 820 einstaklingar eru í dag hælisleitendur á Íslandi, en vegna skorts á húsnæði hefur Útlendingastofnun neyðst til að hýsa hluta þessa fólks á hótelum í Reykjanesbæ og á höfuðborgarsvæðinu.

Í skriflegu svari Útlendingastofnunar til Morgunblaðsins kemur m.a. fram að fjöldi hælisleitenda sem nú gista á hótelum sé um 240 og er kostnaður fyrir hvert hótelherbergi um 15.000 krónur nóttin. Í sumum tilfellum gista fleiri en einn einstaklingur í hverju herbergi, t.a.m. þegar um er að ræða barnafjölskyldur. „Þessi fjöldi sem nú gistir á hótelum hefur aldrei verið meiri, en við höfum þó séð svipaðan fjölda áður,“ segir Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í samtali í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta eru dýrustu úrræðin sem við höfum og um leið og pláss losnar annars staðar tökum við fólk út af hótelum. Álagið er hins vegar mjög mikið og það hafa komið dagar þar sem um 40 manns óska eftir hæli, en undanfarna þrjá mánuði hefur það verið þannig að fleira fólk kemur inn í kerfið en fer út úr því,“ segir hún.

Þeir hælisleitendur sem ekki gista á hótelum eru vistaðir í húsnæði í Reykjavík, Hafnarfirði og á Kjalarnesi. Alls leigir Útlendingastofnun húsnæði á 13 stöðum á höfuðborgarsvæðinu og er leigukostnaður, samkvæmt skriflegu svari stofnunarinnar, um 36 milljónir á mánuði. Við þessa upphæð bætist hótelkostnaður sem skiptir mörgum tugum milljóna á mánuði.“

Langfjölmennasti hópurinn af þessum 820 sem hér eru nefndir eru frá Albaníu og Makedóníu. Fólkið á engan rétt til að setjast hér að í krafti laga og reglna um flóttamenn þótt það krefjist inngöngu í flugstöð Leifs Eiríkssonar sem hælisleitendur. Með því setur það lögreglu afarkosti. Fólkið dvelst hér síðan á kostnað skattgreiðenda á meðan umsóknir eru til meðferðar í kerfinu. Margir stunda svarta vinnu, aðrir njóta heilbrigðisþjónustunnar. Ekki hefur verið upplýst hverjir standa að því að skipuleggja ferðir fólksins hingað eða hvað þeir fá í sinn hlut.

Það er til marks um ótrúlega vanþekkingu eða blekkingarviðleitni að segja að ákvörðun þingmanna fyrir ári hafi ekki haft nein áhrif í heimalöndum þessa fólks.