28.12.2016 15:00

Miðvikudagur 28. 12. 16

Í dag ræddi ég við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn er klukkustund að þessu sinni og verður hann frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld. Hann skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum ræðum við um alþjóðamál, í öðrum hlutanum snýst samtal okkar um stjórnmálin á heimavelli og í þriðja hlutanum ræðum við stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðunum. Sjón er sögu ríkari.

Í athyglisverðri grein Óla Björns Kárasonar, alþingismanns og ritstjóra Þjóðmála, í Morgunblaðinu í dag er lýst átökum um skattamál á alþingi rétt fyrir jólin. Þar segir:

„Á lokasprettinum við afgreiðslu fjárlaga 2017 voru felldar ýmsar tillögur um hækkun skatta og gjalda. [...] Róttækustu tillögurnar um hækkun skatta voru í nafni Vinstri grænna og var formaðurinn Katrín Jakobsdóttir flutningsmaður. Hún átti stuðningsmenn í öðrum flokkum.

Katrín vildi hætta við að fella niður milliþrep í tekjuskatti, innleiða þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt með 20% og 25% þrepum, endurvekja eignarskatt undir hatti auðlegðarskatts, setja komugjöld á farþega, hækka kolefnisgjald enn frekar og setja á sykurskatt. Tillögurnar fólu í sér róttækar skattkerfisbreytingar og verulega hækkun skatta. Þær voru lagðar fram daginn áður en gengið var frá fjárlögum og tekjuforsendum þeirra og voru ekki ræddar í þingnefnd. Katrín sætti að ósekju gagnrýni fyrir vinnubrögðin. Hún var „kosin á þing fyrir pólitískar skoðanir og væntanlega erum við öll hér þess vegna,“ svo vitnað sé til orða Katrínar. Tillögurnar voru því eðlilegar og í samræmi við grunnhugmyndir vinstri manna í öllum flokkum.“

Tillögur Katrínar voru felldar á afgerandi hátt þegar litið er á atkvæðatölurnar þótt efnisleg afstaða sumra hafi verið blendin og vekur þar sérstaka athygli að af hálfu Viðreisnar var beitt tæknilegum en ekki efnislegum rökum gegn tillögunum.

Óli Björn segir réttilega að vegna hugsjóna vinstri grænna (VG) sé ekki unnt að álasa formanni þeirra að hafa lagt fram þessar tillögur. Þær voru hins vegar felldar og mætti því ætla að þingflokki Katrínar Jakobsdóttur sé ljóst að tillögurnar njóta ekki hljómgrunns og eiga því ekki erindi í stjórnarmyndunarviðræður sé í raun vilji til að þær beri árangur. Helst virðist samhljómur milli VG og Pírata í skattamálum.